Hákarlarnir tveir, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu og James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor, voru handteknir klukkan 6:00 í morgun að staðartíma í Windhoek. Handtakan fór fram á búgarði þeirra að því er fram kemur í frétt Namibian.

Paulus Noa, framkvæmdastjóri spillingarlögreglunnar í Namibíu staðfesti að handtakan hafi farið fram og sagði að frekari fregnir muni berast síðar í dag.

Lögfræðingur hákarlanna þriggja og manns að nafni Pius Natangwe Mwatelulo sagði í gær að þeir væru allir reiðubúnir til að gefa sig fram við lögreglu. Lögfræðingurinn spurðist fyrir um hvort þeir væru enn eftirlýstir og bað um skriflega tilskipun um handtöku svo þeir geti gefið sig fram að því er fram kemur í á namibíska fréttamiðlinum New Era.

Mwatelulo er sagður skyldur James Hatuikulipi.

Í dag fara fram forseta- og þingkosningar í Namibíu. Hage Geingob, for­seti lands­ins og leiðtogi SWAPO-flokksins, sem sagði á Twitter fyrir nokkru að Íslendingar ættu að rannsaka spillingu í eigin landi, býður sig fram á ný.