Shamima Begum, 21 árs stelpa sem yfir­gaf Bret­land þegar hún var 15 ára til að ganga til liðs við Íslamska ríkið í Sýr­landi, fær ekki að snúa aftur til Bret­lands til að berjast fyrir ríkis­borgara­rétti sínum en Hæsti­réttur Bret­lands komst að niður­stöðu í málinu í dag.

Mál Shamimu vakti at­hygli á heims­vísu þegar þá­verandi innan­ríkis­ráð­herra Bret­lands á­kvað að svipta hana ríkis­borgara­rétti árið 2019 af öryggis­á­stæðum. Hún var hluti af Íslamska ríkinu í rúm þrjú ár þar til hún fannst í flótta­manna­búðum í Sýr­landi, komin níu mánuði á leið, og vildi þá snúa aftur heim.

Að mati Hæsta­réttar var ekki brotið á réttindum Shamimu þegar henni var neitað að snúa aftur heim en innan­ríkis­ráðu­neytið á­frýjaði niður­stöðu á­frýjunar­dóm­stóls, um að Shamima gæti snúið aftur til Lundúna, til Hæsta­réttar í júlí 2020.

Að sögn for­seta Hæsta­réttar var niður­staðan ein­róma en að mati Hæsta­réttar tók á­frýjunar­dóm­stóllinn ekki nægi­legt til­lit til mats innan­ríkis­ráðu­neytisins á Shamimu. Þá hafi réttindi Shamimu til sann­gjarna réttar­halda ekki trompað þjóðar­öryggi Breta. Núverandi innanríkisráðherra Bretlands sagði niðurstöðuna staðfestingu á ákvörðun forvera hans.

„Ekki full­komin lausn“

Mál hennar hefur því verið sett tíma­bundið á bið þar til hætta stafar ekki lengur af henni eða hún finnur aðra leið til að berjast fyrir máli sínu. Val­mögu­leikar hennar eru þó tak­markaðir þar sem hún fær ekki að­stoð lög­manna í flótta­manna­búðunum þar sem hún dvelur nú.

„Þetta er ekki full­komin lausn, þar sem það er ekki vitað hversu langan tíma það gæti tekið að gera það að mögu­leika. En það er engin full­komin lausn við vanda sem þessum,“ sagði for­seti Hæsta­réttar fyrr í dag. Mann­réttinda­sam­tök hafa nú gagn­rýnt niður­stöðuna og segja málið skapa hættu­legt for­dæmi.

Líkt og áður segir gekk Shamima til liðs við Íslamska ríkið árið 2015 en hún fór þangað á­samt tveimur öðrum stelpum. Við komuna til Sýr­lands giftist hún hollenskum manni sem hafði gengist til liðs við hryðju­verka­sam­tökin. Hún var ó­létt tvisvar áður en hún eignaðist barn í flótta­manna­búðunum í febrúar 2019.

Í við­tali við BBC skömmu eftir að hún eignaðist barnið sagðist hún vilja snúa aftur heim til að ala upp son sinn. Þar sagðist hún ekki sam­mála „öllum“ þeim gildum sem Íslamska ríkið við­hafði og kallaði eftir fyrir­gefningu. Skömmu síðar lést sonur hennar úr lungna­bólgu.