Shamima Begum, 21 árs stelpa sem yfirgaf Bretland þegar hún var 15 ára til að ganga til liðs við Íslamska ríkið í Sýrlandi, fær ekki að snúa aftur til Bretlands til að berjast fyrir ríkisborgararétti sínum en Hæstiréttur Bretlands komst að niðurstöðu í málinu í dag.
Mál Shamimu vakti athygli á heimsvísu þegar þáverandi innanríkisráðherra Bretlands ákvað að svipta hana ríkisborgararétti árið 2019 af öryggisástæðum. Hún var hluti af Íslamska ríkinu í rúm þrjú ár þar til hún fannst í flóttamannabúðum í Sýrlandi, komin níu mánuði á leið, og vildi þá snúa aftur heim.
Að mati Hæstaréttar var ekki brotið á réttindum Shamimu þegar henni var neitað að snúa aftur heim en innanríkisráðuneytið áfrýjaði niðurstöðu áfrýjunardómstóls, um að Shamima gæti snúið aftur til Lundúna, til Hæstaréttar í júlí 2020.
Að sögn forseta Hæstaréttar var niðurstaðan einróma en að mati Hæstaréttar tók áfrýjunardómstóllinn ekki nægilegt tillit til mats innanríkisráðuneytisins á Shamimu. Þá hafi réttindi Shamimu til sanngjarna réttarhalda ekki trompað þjóðaröryggi Breta. Núverandi innanríkisráðherra Bretlands sagði niðurstöðuna staðfestingu á ákvörðun forvera hans.
„Ekki fullkomin lausn“
Mál hennar hefur því verið sett tímabundið á bið þar til hætta stafar ekki lengur af henni eða hún finnur aðra leið til að berjast fyrir máli sínu. Valmöguleikar hennar eru þó takmarkaðir þar sem hún fær ekki aðstoð lögmanna í flóttamannabúðunum þar sem hún dvelur nú.
„Þetta er ekki fullkomin lausn, þar sem það er ekki vitað hversu langan tíma það gæti tekið að gera það að möguleika. En það er engin fullkomin lausn við vanda sem þessum,“ sagði forseti Hæstaréttar fyrr í dag. Mannréttindasamtök hafa nú gagnrýnt niðurstöðuna og segja málið skapa hættulegt fordæmi.
Líkt og áður segir gekk Shamima til liðs við Íslamska ríkið árið 2015 en hún fór þangað ásamt tveimur öðrum stelpum. Við komuna til Sýrlands giftist hún hollenskum manni sem hafði gengist til liðs við hryðjuverkasamtökin. Hún var ólétt tvisvar áður en hún eignaðist barn í flóttamannabúðunum í febrúar 2019.
Í viðtali við BBC skömmu eftir að hún eignaðist barnið sagðist hún vilja snúa aftur heim til að ala upp son sinn. Þar sagðist hún ekki sammála „öllum“ þeim gildum sem Íslamska ríkið viðhafði og kallaði eftir fyrirgefningu. Skömmu síðar lést sonur hennar úr lungnabólgu.
BREAKING
— Liberty (@libertyhq) February 26, 2021
Supreme Court has overturned previous ruling over Shamima Begum’s right to return to the UK to participate in her case.
The right to a fair trial protects all of us. Stripping someone’s citizenship without due process sets a dangerous precedent.