Hin 23 ára gamla Shamima Begum, skóla­stúlka sem yfir­gaf Bret­land árið 2015 og gekk til liðs við hryðju­verka­sam­tökin sem kenna sig við Íslamska ríkið var fórnar­lamb mansals. Þetta kom fram í réttar­höldum þar sem Shamima leitast við að fá á­kvörðun stjórn­valda um sviptingu ríkis­borgara­réttar hennar hnekkt.

Mál Shamimu hefur vakið mikla at­hygli undan­farin ár. Hún ólst upp í London en á­kvað árið 2015 að yfir­gefa landið á­samt tveimur vin­konum sínum þaðan sem þær héldu til Sýr­lands og gengu til liðs við hryðju­verka­sam­tökin. Þarna réðu sam­tökin yfir stóru land­svæði á milli landa­mæra Íraks og Sýr­lands.

Árið 2019 á­kvað þá­verandi innan­ríkis­ráð­herra Bret­lands Sajid Javid að svipta Shamimu ríkis­borgara­rétti sínum og bar fyrir sig að það væri af öryggis­á­stæðum. Við komuna til Sýr­lands giftist hún hollenskum manni sem hafði gengist til liðs við hryðju­­verka­­sam­tökin. Hún var ó­­létt þrisvar og létust öll börn hennar.

Notuð í kynferðislegum tilgangi

Lög­maður Shamimu, Samantha Knights, færði fyrir því rök í dóm­sal í London í gær að á­kvörðun innan­ríkis­ráð­herrans hefði verið tekin af fljót­færni.

„Málið snýst um breskt 15 ára gamalt barn sem var sann­færð með vinum sínum af á­róðurs­maskínu Íslamska ríkisins,“ sagði Samantha meðal annars.

Hún segir yfir­gnæfandi sönnunar­gögn fyrir því að Shamima hafi verið fórnar­lamb mansals. Hún hafi verið nýtt í kyn­ferðis­legum til­gangi af sam­tökunum.

Bresk varnar­mála­ráðu­neytið heldur sig hins­vegar við sín rök. Shamimu hafi verið full­ljóst árið 2015 að um væri að ræða hryðju­verka­sam­tök. Enginn sem ferðast hafi til Sýr­lands á þessum tíma hafi ekki vitað af á­standinu í landinu.