Hin ní­tján ára gamla Shamima Begum sem svipt var ríkis­borgara­rétti af breska ríkinu vegna dvalar sinnar með hryðju­verka­sam­tökunum sem kenna sig við Íslamska ríkið, hefur fengið lög­fræði­að­stoð af hálfu breska ríkisins vegna málsins, að því er fram kemur á vef BBC.

Mál Shamimu hefur undan­farna mánuði vakið heims­atygli en hún gekk til liðs við sam­tökin árið 2015 og eignaðist fyrr á árinu son sem lést síðar úr lungna­bólgu. Shamima biðlaði til breskra stjórn­valda um að fá að snúa heim en var svipt ríkis­borgara­rétti.

Fram hefur komið að sonurinn var breskur ríkis­borgari en bresk yfir­völd sáu sér ekki fært að veita honum að­stoð. Shamima var svipt ríkis­borgara­rétti í febrúar en fjöl­skylda hennar vinnur nú að því að fá á­kvörðuninni hnekkt.

Shamima fær lög­fræði­að­stoð eftir úr­skurð breskrar stofnunar sem sér um með­ferð laga­að­stoðar til handa fólki sem ekki getur orðið sér úti um slíka að­stoð sjálft. Utan­ríkis­ráð­herrann Jeremy Hunt, sem í­trekað hefur tjáð sig með fjand­sam­legum hætti í garð Shamimu, segir að á­kvörðun stofnunarinnar komi sér spánskt fyrir sjónir.

Bret­land „sé hins vegar ríki þar sem þeir borgara sem minnst hafi á milli handanna geti borið hendur yfir höfði sér gagn­vart ríkinu þegar það taki á­kvarðanir um það.“ Ekki er ljóst hverjar næstu vendingar í máli Begum verða og gæti tekið mörg ár að fara yfir mál hennar að því er fram kemur í frétt BBC.