Skammtímakjarasamningur hefur verið undirritaður milli Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins. Í fréttatilkynningu frá SA kemur fram að markmið samningsins sé að styðja við kaupmátt launafólks og brúa bili yfir í nýjan langtímasamning í anda Lífskjarasamningsins. Þar hafi áhersla verið lögð á að tryggja efnahagslega velsæld og aukna verðmætasköpun, bæta lífskjör og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta.
„Meginviðfangsefnið er að verja þann árangur sem náðst hefur á liðnum árum og tryggja grundvöll áframhaldandi lífskjarabata á komandi misserum“ segir í tilkynningunni.
Í ljósi krefjandi efnahagslegra aðstæðna, sem einkum hafi einkennst af mikilli verðbólgu og vaxtahækkunum, sé mikilvægt að samningar aðila vinnumarkaðsins hafi þau skýru markmið að styðja við kaupmátt og að jafnvægi náist sem fyrst í hagkerfinu.
„Með áherslu á að verja kaupmátt í samningi til skamms tíma er það ásetningur samningsaðila að skapa fyrirsjáanleika á miklum óvissutímum – fjölskyldum og fyrirtækjum til hagsbóta,“ segir í tilkynningunni.
Þá sé tímasett viðræðuáætlun sem ætlað sé að láta samning taka við af samningi hluti af samkomulagi aðila, sem tryggi samfellu milli Lífskjarasamningsins frá árinu 2019 og nýs langtímasamnings.
„Aðilar hafa komið sér saman um þau meginatriði sem horfa þarf til við þá vinnu og sammælst um að þegar verði hafist handa við undirbúning þeirra viðræðna. Markmiðið er að tryggja áframhaldandi kaupmáttaraukningu launafólks þegar óvissutímabili lýkur og að samningur gaki við af samningi,“ segir í tilkynningunni.