Bæjaryfirvöld á Seyðisfirði skoða nú möguleika á því að hindra mögulegar aurskriður á efstu húsin í sunnanverðum bænum. Til athugunar er aðferð sem hópur íslenskra sérfræðinga kynnti sér erlendis í október.

Úlfar Trausti Þórðarson, skipulags- og byggingarfulltrúi Seyðisfjarðar, fór ásamt fulltrúum Veðurstofunnar, Ofanflóðasjóðs og Eflu verkfræðistofu til Sviss og Austurríkis til að kynna sér ofanflóðavarnir þar, bæði vegna snjóflóða og aurflóða. Úlfar segir að við hraðbraut hjá Vierwaldstättersee utan við Bern hafi þeir skoðað hvernig hægt sé á skriði jarðvegsmassa við aðstæður sem Úlfar kveður hægt að heimfæra upp á Seyðisfjörð. Er þar um að ræða svokallaða Botnabrún sunnan við bæinn og skammt ofan við byggðina.

Úlfar segir Seyðfirðinga hingað til ekki hafa haft miklar áhyggjur af aurskriðum en nú segi sérfræðingar að ástæða sé til að huga að vörnum.

„Það kom hingað fulltrúi frá Veðurstofunni í haust og var með íbúafund þar sem sagt var að þetta væri hættulegt. Og þá er íbúum hérna náttúrlega ekki sama og þeir vilja að það sé eitthvað gert í þessu,“ segir Úlfar.

Aðferðin sem Úlfar sá við Vierwaldstättersee og hann kynnti fyrir bæjarráði í síðustu viku byggir á að boruð verða manngeng göng inn í og upp í gegn um klettabeltið sem jarðvegurinn í Botnabrún hvílir á. Um þess göng getur síðan vatn runnið úr jarðefninu ofan á klettinum og þar með minnkað hættuna á aurskriðum í miklu vatnsveðri.

Manngeng göng taka við vatni úr öðrum göngum sem liggja upp í gegn um bergið ofan við Vierwaldstättersee í Sviss.

„Þetta er eins konar drenun á massa til að hægja á honum eins hægt er. Það hafa komið miklar rigningar undanfarin ár og þá hafa komið litlar spýjur eða aurskriður í ám og lækjum,“ lýsir Úlfar. „Þetta er beint fyrir ofan við byggðina og það þarf að gera eitthvað til að hægja á þessu þegar hætta er á ferðum.“

Aðspurður segir Úlfar ekki ljóst hver kostnaðurinn við slíka framkvæmd væri. Hann gæti numið 800 til 1.500 milljónum króna. Ofanflóðasjóður segi reyndar að þeir peningar séu ekki til.

Í framhaldi af kynningu Úlfars ákvað bæjarráð að boða til íbúafundar nú í desember með fulltrúum Veðurstofunnar og Ofanflóðasjóðs.