Aðalheiður L. Borgþórsdóttir, fulltrúi sveitarstjóra Múlaþings á Seyðisfirði, segir að ekki eigi að rýma fleiri hús í bænum en þau níu sem þegar hafi verið rýmd.

Ofanflóðavakt Veðurstofunnar fylgist náið með aurskriðuhættu á Seyðisfirði. Enn mælist hreyfing á fleka utan í stóra skriðusárinu í hlíðinni ofan bæjarins við Búðará.

Aðalheiður segir svæðið vel vaktað. Bæjarbúar séu allir rólegir. „Þrátt fyrir það er fólk orðið þreytt á því að lifa í óvissu og ótta um skriðuföll. Þetta er hins vegar bara raunveruleiki sem við verðum að lifa með.“

Í lok vikunnar er von á talsverðri úrkomu á svæðinu og því var ákveðið að aflétta ekki rýmingu á níu húsum sem rýmd voru í fyrradag.