Gauti Jóhannesson forseti sveitarstjórnar Múlaþings verður fulltrúi sveitarstjórnarinnar í starfshóp ríkisins, sem snýr að uppbyggingu á Seyðisfirði. Í starfshópi ríkisins eru tveir lögfræðingar, byggingarverkfræðingur, fornleifafræðingur, stjórnsýslufræðingur og viðskiptafræðingur. Einn úr hópi ríkisins starfaði sem minjavörður á Austurlandi í rúm tvö ár og var Seyðisfjörður innan minjasvæðis. Þá er Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn með í hópnum, en hann er tilnefndur af almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.

Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Meginhlutverk starfshópsins er tvíþætt, segir í svarinu. Annars vegar að vera tengiliður ríkisvaldsins og stofnana þess við sveitarfélagið um mál og verkefni sem leysa þarf í kjölfar hamfaranna. Hins vegar að yfirfara kostnað sem til fellur í kjölfar skriðanna og eftir atvikum gera tillögur til ríkisstjórnar um greiðslur. Ríkisstjórnin hét því að greiða tvo þriðju hluta við hreinsunarstarf í bænum vegna hamfaranna í síðasta mánuði, en hann hleypur á hundruðum milljóna króna miðað við grófa áætlun.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu í byrjun árs kom fram að ekki liggi fyrir endanleg kostnaðaráætlun en ætla mætti að uppgröftur og hreinsunarstarf muni kosta á bilinu 300-600 milljónir. Það er þó gróf áætlun. Ríkið hefur borgað tvo þriðju hluta kostnaðar við álíka hamfarir undangengin ár, en sveitarfélögin hafa greitt það sem upp á vantar. Líklega mun heildarkostnaður vegna tjónsins ekki liggja fyrir fyrr en í vor eða síðar.

Í svari forsætisráðuneytisins segir að aðilarnir sem skipa starfshópinn séu ýmist sérfræðingar í þeim málaflokkum sem undir eru, eða hafi reynslu af því að koma að svona starfi. Náttúruhamfaratryggingar koma að því að bæta tjón sem varð á ýmsum innviðum eins og fráveitukerfi, en hópurinn á að stuðla að því að koma öðrum innviðum í fyrra horf eins og söfnum og menningarstarfsemi.