Hellamálverk sem fundust á dropasteinum í spænskum helli voru gerð af Neanderdalsmönnum fyrir rúmum 60.000 árum, samkvæmt nýrri vísindarannsókn sem birt var á mánudag.
Málið hefur valdið ólgu innan fornleifasamfélagsins allt frá því að vísindagrein sem gefin var út árið 2018 gaf til kynna að litarefni úr rauðu okkri sem fannst á dropasteinskertum í Ardales hellinum á suður Spáni hefði verið málað af fjarskyldum ættingjum mannsins.
Aldursgreining hafði gefið til kynna að hellamálverkin hefðu verið gerð fyrir að minnsta kosti 64.800 árum, á tíma þegar nútíma homo sapiens höfðu enn ekki haldið innreið sína inn í Evrópu.
Niðurstöðurnar voru umdeildar og vildu sumir vísindamenn meina að liturinn gæti verið kominn til af náttúrulegum orsökum á borð við flæði járnoxíðs.

Voru máluð yfir mörgþúsund ára tímabil
Nýlegar rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós að samsetning og staðsetning litarins samræmist ekki náttúrulegum ferlum heldur benda þær til þess að litnum hafi verið komið fyrir á dropasteinunum með skvettum og blástri.
Þar að auki samræmdist áferð þeirra ekki náttúrulegum sýnum sem tekin voru í hellinum, sem bendir til þess að litarefnið hafi átt utanaðkomandi uppruna.
Nákvæmari aldursgreining sýndi að liturinn hafði verið málaður á mismunandi tíma og höfðu liðið allt að 10.000 ár á milli. Þetta rennir stoðum undir þá kenningu að Neanderdalsmenn hafi komið í hellinn í mörg skipti yfir nokkur þúsund ár til að mála.
Ekki er hægt að bera saman hina svokölluðu „list“ Neanderdalsmannanna við veggjalist sem gerð var af forfeðrum nútímamannsins og fundist hafa víða, til að mynda í Lascaux hellinum í Frakklandi. Uppgötvunin í Ardales mun þó mögulega breyta þekkingu okkar á Neanderdalsmönnum sem hafa hingað til verið álitnir mun frumstæðari heldur en ættingjar þeirra, homo sapiens.
Vísindamennirnir sem rannsökuðu hellinn vilja ekki meina að hellamálverkin séu „list“ í skilningi okkar nútímafólks heldur sé um að ræða „grafíska hegðun sem ætlað er að viðhalda táknrænu mikilvægi rýmisins“. Hellamálverkin höfðu mikilvægt táknrænt hlutverk í samfélagi Neanderdalsmannanna sem gerðu þau en hvað það hlutverk var en ráðgáta enn sem komið er.