Hella­mál­verk sem fundust á dropa­steinum í spænskum helli voru gerð af Neander­dals­mönnum fyrir rúmum 60.000 árum, sam­kvæmt nýrri vísinda­rann­sókn sem birt var á mánu­dag.

Málið hefur valdið ólgu innan forn­leifa­sam­fé­lagsins allt frá því að vísinda­grein sem gefin var út árið 2018 gaf til kynna að litar­efni úr rauðu okkri sem fannst á dropa­stein­skertum í Arda­les hellinum á suður Spáni hefði verið málað af fjar­skyldum ættingjum mannsins.

Aldurs­greining hafði gefið til kynna að hella­mál­verkin hefðu verið gerð fyrir að minnsta kosti 64.800 árum, á tíma þegar nú­tíma homo sapi­ens höfðu enn ekki haldið inn­reið sína inn í Evrópu.

Niður­stöðurnar voru um­deildar og vildu sumir vísinda­menn meina að liturinn gæti verið kominn til af náttúru­legum or­sökum á borð við flæði járn­oxíðs.

Nokkur af hellamálverkunum sem fundust í hellinum.
Fréttablaðið/AFP

Voru máluð yfir mörgþúsund ára tímabil

Ný­legar rann­sóknir hafa hins vegar leitt í ljós að sam­setning og stað­setning litarins sam­ræmist ekki náttúru­legum ferlum heldur benda þær til þess að litnum hafi verið komið fyrir á dropa­steinunum með skvettum og blástri.

Þar að auki sam­ræmdist á­ferð þeirra ekki náttúru­legum sýnum sem tekin voru í hellinum, sem bendir til þess að litar­efnið hafi átt utan­að­komandi upp­runa.

Ná­kvæmari aldurs­greining sýndi að liturinn hafði verið málaður á mis­munandi tíma og höfðu liðið allt að 10.000 ár á milli. Þetta rennir stoðum undir þá kenningu að Neander­dals­menn hafi komið í hellinn í mörg skipti yfir nokkur þúsund ár til að mála.

Ekki er hægt að bera saman hina svo­kölluðu „list“ Neander­dals­mannanna við veggja­list sem gerð var af for­feðrum nú­tíma­mannsins og fundist hafa víða, til að mynda í Las­caux hellinum í Frakk­landi. Upp­götvunin í Arda­les mun þó mögu­lega breyta þekkingu okkar á Neander­dals­mönnum sem hafa hingað til verið á­litnir mun frum­stæðari heldur en ættingjar þeirra, homo sapi­ens.

Vísinda­mennirnir sem rann­sökuðu hellinn vilja ekki meina að hella­mál­verkin séu „list“ í skilningi okkar nú­tíma­fólks heldur sé um að ræða „grafíska hegðun sem ætlað er að við­halda tákn­rænu mikil­vægi rýmisins“. Hella­mál­verkin höfðu mikil­vægt tákn­rænt hlut­verk í sam­fé­lagi Neander­dals­mannanna sem gerðu þau en hvað það hlut­verk var en ráð­gáta enn sem komið er.