Rúm 60 prósent þeirra sem tóku afstöðu í nýrri könnun styðja að ríkið fjármagni jarðgangagerð að hluta til eða öllu leyti með veggjöldum. Innan við 5 prósent vilja ekki að ríkið fjármagni jarðgangagerð. Þetta kemur fram í nýrri könnun Prósents.

Flestir, 35,7 prósent, vilja að ríkið fari blandaða leið fjármögnunar með veggjöldum og skattfé. Tæpur fjórðungur, 24,4 prósent, vill að gangagerðin sé alfarið fjármögnuð með veggjöldum. Samanlagt gerir þetta 60,1 prósent.

Flestir þeirra sem eru á móti veggjöldum vilja að ríkið fjármagni jarðgangagerð alfarið með skattfé, eða 31,7 prósent þeirra sem svöruðu. 3,8 prósent vilja að fjármögnunin sé með öðrum hætti og 4,3 prósent vilja ekki að ríkið fjármagni jarðgangagerð yfir höfuð.

Nokkuð meiri stuðningur er við að gangagerð sé alfarið fjármögnuð með skattfé á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, 39 prósent á móti 28. Á höfuðborgarsvæðinu eru líka fleiri sem styðja að farin sé hrein leið veggjalda, 26 prósent, en 21 prósent landsbyggðarfólks styður hana.

Vestfirðingar eru hrifnastir af því að ríkið komi að fjármögnun með skattfé að einhverju leyti eða hluta, samanlagt 93 prósent. Aðeins 7 prósent þeirra vilja hreina leið veggjalda og enginn Vestfirðingur svaraði á þá leið að ríkið ætti ekki að koma að jarðgangagerð.

Svipaðar tölur mátti sjá á Austurlandi, þar sem 81 prósent vill sjá hið opinbera veita skattfé í gangagerð en aðeins 11 prósent að farin sé hrein leið veggjalda.

Þessir tveir landshlutar eru afar háðir góðum vegasamgöngum og nokkur jarðgöng þar í samgönguáætlun. Meðal þeirra eru Fjarðarheiðargöng, göng milli Vopnafjarðar og Héraðs og göng milli Ísafjarðar og Súðavíkur.

Á hinn bóginn var mestur stuðningur við að jarðgangagerð sé að fullu fjármögnuð með veggjöldum á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi og Suðurlandi, 26 til 29 prósent.

Tiltölulega lítill munur mældist milli kynja, aldurshópa eða tekjuhópa fyrir utan að tekjuhæsti hópurinn, með 1,5 milljónir króna eða meira í mánaðartekjur, var hlynntari hreinni leið veggjalda en aðrir, 32 prósent á móti 21 til 25 prósenta hjá öðrum tekjuhópum.

Könnunin var netkönnun gerð dagana 28. júlí til 4. ágúst. Úrtakið var 1.750 og svarhlutfallið 53,5 prósent.