Hin vinsæla Víkurfjara við þorpið í Vík var ekki svipur hjá sjón á dögunum þegar rusl lá eins og hráviði um alla ströndina. Eftir mikil óveður undanfarið hafði sjórinn gengið inn að gömlum urðunarstað og grafið upp ruslið.

„Þetta gerðist allt í einu. Fyrir svona hálfum mánuði byrjaði þetta að sjást og svo sérstaklega eftir óveðrið síðustu helgi kom svakalegt magn af þessu í ljós, þá var rosalegt brim, sjógangurinn hefur brotið meira og þá rak þetta á land,“ segir Þórir Kjartansson, fyrrverandi framkvæmdarstjóri Víkurprjóns. Hann og félagar hans tóku sig til og hreinsuðu fjöruna.

Næstum eins og plastið hafi verið urðað í gær

„Sjórinn hefur verið að brjóta af fjörunni lengi og þetta eru ruslahaugar sem eru talsvert langt austan við þorpið. Sjórinn er að komast inn að þeim núna og þá berst þetta bölvaða plastdót með fjörunni. Þetta er mikið af gömlum mjólkurpokum en það voru notaðir plastpokar utan um mjólkina hérna í gamla daga í kringum 1965 – 70 held ég,“ segir Þórir.

„Það er næstum eins og þeir hafi verið urðaði í gær, það sér svo lítið á þeim. Þetta sýnir manni hvað plastið lifir lengi í jörðinni.“

„Við erum svona óformlegur félagsskapur, karlar sem erum hættir að vinna og höfum verið að stunda uppgræðslu í fjörunni með aðstoð landgræðslunnar og verið að laga til því hingað kemur óhemju mikið af túristum.“ Þórir segir að undir eins hafi birst myndir af ruslinu í fjörunni og var spurt hvað væri eiginlega í gangi í Víkurfjöru.

Félagarnir sem ganga undir nafninu Fjörulallar hafa einnig sett upp borð og bekki í fjörunni í samvinnu við sveitarfélagið sem veitir þeim stuðning við að bæta aðstöðuna við sjóinn.

Ekki ljóst hvar uppsprettan er

„Maður hefur farið þarna með austurfjörunni en ekki almennilega getað fundið hvar uppsprettan er,“ segir Þórir. „Hvort sjórinn er kominn inn úr þessu eða ekki er ekki víst. Aðalmálið að stoppa uppsprettuna, grafa þetta upp og flytja annað.“

Urðunarstaðurinn er í landi sveitarfélagsins sem hafði óskað eftir sjálfboðaliðum til að hjálpa við að hreinsa fjöruna í gær. Það reyndist þó óþarfi vegna framtakssemi Þóris og félaga og var því blásið af.
Mynd/Þórir Kjartansson
Fjaran leit betur út eftir að ruslið var hreinsað.
Mynd/Þórir Kjartansson
Fjörulallar ásamt sjáflboðaliðum.
Mynd/Þórir Kjartansson