Um sex­tán fjöl­skyldur með ung­börn eru í smit­gát eftir að hjúkrunar­fræðingur sem annaðist ung­barna­eftir­lit á Sól­vangi greindist með CO­VID-19 smit á dögunum. Þetta segir Sig­ríður Dóra Magnús­dóttir, um­­­dæmis­­læknir sótt­varna á höfuð­­borgar­­svæðinu, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Eitt smit greindist einnig hjá starfs­manni í heima­hjúkrun Heilsu­gæslunnar á höfuð­borgar­svæðinu og ein­hverjir voru settir í sótt­kví í fram­haldinu. Vegna þessa var erfitt að manna vaktina í heima­hjúkrun um helgina og þurfti að leita til að­stand­enda skjól­stæðinga.

Enginn annar hefur greinst smitaður hingað til, hvorki af starfs­fólki eða skjól­stæðingum, en ein­hverjir starfs­menn eru í sótt­kví eða vinnu­sótt­kví. Áður en smitið greindist höfðu sótt­varnar­ráð­stafanir á heilsu­gæslunni verið hertar vegna aukinna smita í sam­fé­laginu.

Heilsu­gæslan var lokuð í morgun til að hægt væri að sótt­hreinsa allt. Hún opnaði klukkan 13:00 með skertri starf­semi. Sig­ríður segist búast við því að heilsu­gæslan muni aftur starfa eins og venju­lega á föstu­daginn, ef allt gengur eftir.

Þangað til er lögð á­hersla á raf­ræn sam­skipti og síma­þjónustu, tekið verður á móti bráða­til­fellum til klukkan 16:00 en það verður engin síð­degis­vakt. Þá er fólki beint á að leita til annarra stöðva ef erindið verður ekki af­greitt með þessum hætti.