Fjöldi sjálfsvíga fyrstu sex mánuði ársins 2022 var sextán eða 4,3 á hverja 100 þúsund íbúa samkvæmt bráðabirgðatölum frá embætti landlæknis.
Fjöldinn er áþekkur tölum fyrri ára en meðalfjöldi sjálfsvíga á fyrstu sex mánuðum áranna 2017 til 2021 var sautján eða 4,8 á hverja 100 þúsund íbúa.
Á þessu fimm ára tímabili var fjöldi sjálfsvíga fyrstu sex mánuði hvers árs á bilinu þrettán til tuttugu.
Samkvæmt upplýsingum af vef landlæknis kemur fram að opinber tölfræði um sjálfsvíg byggi á dánarmeinaskrá landlæknis. Fjöldi sjálfsvíga taki til andláta þar sem undirliggjandi dánarorsök á dánarvottorði sé skráð vísvitandi sjálfsskaði.
Ferlið geti tekið langan tíma þar sem skráningu dánarmeina sé ekki hægt að ljúka fyrr en öll gögn og krufningarskýrslur frá réttameinafræðideild Landspítalans hafi bortist embætti landlæknis.
Hafa ber í huga að tölurnar hér að ofan geta breyst þegar uppgjör alls ársins liggur fyrir.
Ef þú eða einhver sem þú þekkir glímir við sjálfsvíghugsanir ráðleggjum við þér að ræða málin við sérþjálfaða ráðgjafa Rauða krossins í hjálparsímanum, 1717, eða á netspjalli Rauða krossins.
Einnig reka Píeta samtökin gjaldfrjálsa þjónustu fyrir fólk í sjálfsvígshættu, sem glímir við sjálfsvígshugsanir og aðstandendur þeirra.
Píetasíminn 552 2218 er opinn allan sólarhringinn. Í neyðartilvikum skal ávalt hringja í 112.
Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi bendum við á stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð. 551-4141 og hjá Pieta samtökunum s. 552-2218.