Bensínfótur ferðalanga á Suðurlandi var heldur þungur í gær. Fulltrúi lögreglunnar á Suðurlandi, sem staðsettur var í Vík, hafði afskipti af 16 ökumönnum sem óku of hratt þar, 15 erlendum ferðamönnum og einum Íslending. Þessir aðilar greiddu sektir sínar á vettvangi og námu þær samtals vel á aðra milljón króna að því er fram kemur í tilkynningu lögreglu.

Afskipti lögreglu af umferðinni hafa verið aukin verulega að undanförnu og standa vonir til þess að það leiði til fækkunar slysa. Alls voru 345 einstaklingar kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu í janúar og febrúar. Á sama tíma í fyrra nam fjöldi kærðra 126.