Að minnsta kosti 16 eru særðir eftir að sprengja sprakk við rútu nærri Grand Egyptian-safninu við pýramídana í Giza í dag.

Flestir hinna særðu eru erlendir ferðamenn, einhverjir frá Suður-Afríku, en einnig Egyptalandi. Enginn er alvarlega særður samkvæmt heimildum BBC.

Ekki liggur fyrir hver stendur að baki sprengjuárásinni en íslamskir vígamenn hafa áður gengist við ábyrgð fyrir slíkum í Egyptalandi. Sú síðasta sprakk í desember með þeim afleiðingum að þrír víetnamskir ferðamenn og leiðsögumaður þeirra létust.

Framkvæmdir standa nú yfir í Grand Egyptian-safninu og er áætlað að það opni á ný á næsta ári.