Utanríkisráðuneytið hefur tekið saman upplýsingar um kostnað vegna aðkeyptrar lögfræðiráðgjafar sem tengist þingsályktunartillögu um innleiðingu hins svokallaða þriðja orkupakka.

Kostnaður við ráðgjöfina nemur samtals rúmum 16 milljónum króna. Stærstur hlutur rann til Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, eða tæplega 8,5 milljónir króna fyrir álit hans og kostnaður við ferðalag hans til Íslands en hann kom einnig fyrir utanríkismálanefnd Alþingis í maí.

Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, fékk tæplega 2,8 milljónir og Friðrik Árni Friðriksson Hirst lögfræðingur fékk tæplega 1,8 milljónir. Skúli Magnússon, héraðsdómari og dósent við lagadeild Háskóla Íslands, fékk 1,5 milljónir króna og Thales slf, félag Davíðs Þórs Björgvinssonar, dómara við Landsrétt, fékk 927 þúsund krónur. Alþjóða- og Evrópuréttarstofnun HR fékk 675 þúsund krónur.

Þriðji orkupakkinn svokallaði var ekki afgreiddur á Alþingi áður en þingmenn fóru í sumarfrí. Hann verður tekinn fyrir í lok ágúst að ráðgert er.

Sundurliðaður kostnaður vegna álitsgerðanna og vinnu í tengslum við þær er sem hér segir:

Stefán Már Stefánsson - 2.756.520 kr.
Friðrik Árni Friðriksson Hirst - 1.776.880 kr.
Thales slf. (Davíð Þór Björgvinsson) - 927.520 kr.
Skúli Magnússon - 1.500.000 kr.
Alþjóða- og Evrópuréttarstofnun HR - 675.000 kr.
Carl Baudenbacher - 8.470.737 kr.
Samtals: 16.106.657 kr.