Kvennaathvarfið hefur fengið stofnframlög frá bæði Íbúðalánasjóði og Reykjavíkurborg til að hefja byggingu nýs húsnæðis þar sem konur og börn sem flúið hafa ofbeldi og leitað til þeirra geta dvalið í í allt að tvö ár.

„Þetta er verkefni sem við fórum af stað með á síðasta ári, að nýta okkur þessi nýju lög sem gera manni kleift að fá mótframlag frá ríki og sveitarfélagi vegna byggingarkostnaðar. Við vorum með söfnun í haust með Á allra vörum og þetta kemur í framhaldi af þeirri söfnun,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, í samtali við Fréttablaðið í dag.

Kvennaathvarfið hefur fengið úthlutað lóð frá Reykjavíkurborg, þar sem verður byggt íbúðarhúsnæði með sextán íbúðum, sem verða ýmist með einu, tveimur eða þremur herbergjum. Konurnar munu koma til með að borga einhverja leigu, sem Sigþrúður segir að verði mjög viðráðanleg og að konurnar muni ekki þurfa að hafa fjárhagsáhyggjur á meðan dvölinni stendur.

„Þetta verður millistigsúrræði fyrir konur sem myndu annars festast í dvöl í Kvennaathvarfinu, eða fara allt of snemma út án þess að vera tilbúnar að standa á eigin fótum. Þetta verður tímabundið, en verður öruggt skjól fyrir þær og á meðan dvöl stendur munu þær njóta aðstoðar Kvennaathvarfsins,“ segir Sigþrúður.

„Við sjáum það þannig að þarna geti dvalið konur sem eru í veikri stöðu fyrir og þær geti nýtt tímann og gert samning við upphaf leigutímans hvernig þær sjá það fyrir sér að komast út úr þessum veiku aðstæðum og geti nýtt sér allan sinn styrk. Við vonum að þær geti flutt inn næsta haust. En það á margt eftir að gerast þangað til.“

Mikil þörf á slíku úrræði

Sigþrúður segir að mikil þörf sé á slíku úrræði. Dvalartími þeirra kvenna sem hjá þeim dvelja hafi verið að lengjast undanfarin ár. „Konur hafa verið að festast því húsnæðismarkaðurinn er erfiður, en þetta er líka jákvætt á sinn hátt því þær eru síður að fara aftur heim til ofbeldismannsins. Við sjáum bara að þær þurfa á meiri þjónustu að halda, heldur en þessi neyðarþjónusta sem er bara í boði núna.

Húsnæðið verður á besta stað í bænum, að sögn Sigþrúðar og segir í tilkynningu að lögð verði áhersla á stuðning við íbúanna í góðu samstarfi Kvennaathvarfsins, velferðarsviðs, lögreglu og annarra sem styðja við þolendur ofbeldis. ‚

 „Hugmyndin er að þær muni allar eiga sitt heimili en á sama tíma sé þetta ákveðið samfélag. Það verður sameiginlegt rými þar sem þær geta hist og átt samskipti við konur sem hafa gengið í gegnum það sama og þær.“

Kvennaathvarfið heldur áfram að safna fyrir húsinu og framkvæmdinni og Sigþrúður sagði marga hafa lagt hönd á plóg og hún sé mjög þakklát fyrir það. En þann 12. maí verða góðgerðatónleikar sem skipulagðir eru af Oddfellow reglunni.

„Það er pínulítið nýtt, en það er karlahópur að skipuleggja þá tónleika, það er mjög ánægjulegt,“ segir Sigþrúður að lokum.

Tilkynnt var um þetta á Facebook síðu samtakanna í dag, færsluna er hægt að sjá hér að neðan.