Ákvörðun fráfarandi meirihlutans í Hveragerði undir stjórn Sjálfstæðisflokksins um kaup á nýrri Hamarshöll var eitt af því sem flokkarnir sem nú taka við stjórn bæjarins gagnrýndu á kjörtímabilinu.

Málið varð mjög umdeilt stuttu fyrir kosningar þar sem bæjarstjórn tók einhliða ákvörðun í apríl sl. um að kaup á samskonar loftbóluhúsi og sprakk í loft upp í óveðri í febrúar. Þetta segir Njörður Sigurðsson, sagnfræðingur og bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis.

Framboðið hlaut 39,4 prósent at­kvæða og þrjá bæjarfulltrúa og er nú stærsta stjórnmálafl bæjarins. Það mun mynda meirihluta með Framsóknarflokknum sem fékk 28 prósent at­kvæða og fær því inn tvo full­trúa og bætti einum við sig frá síðustu kosningum.

Njörður Sigurðsson, bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis sem skipaði annað sætið á listanum.
Mynd/Facebook

Að sögn Njarðar fékk bæjarstjórnin verkfræðiskrifstofu til að skoða möguleika á nýju íþróttahúsi. Skoða hafi átt 5 kosti en einungis 2 tilgreindir, annars vegar loftbóluhús eða gríðarlega kostnaðarsamt mannvirki. „Það voru engir valkostir í raun,“ segir Njörður og segir enn fremur að beðið hafi verið um frest í bæjarstjórn vegna málsins í tvær vikur en bæjarstjórnin undir stjórn Aldísar bæjarstjóra hafnað því.

Tekin var svo ákvörðun stuttu fyrir kosningar hjá meirihlutanum um kaup á samskonar íþróttahúsi og sprakk í vetur.

Skjáskot af facebooksíðu Aldísar Hafsteindóttur fráfarandi bæjarstjóra

Athygli vakti að Aldís bæjarstjóri fann sig knúna til að biðjast afsökunar á „ónærgætnu“ svari sem hún lét falla á íbúafundi um Hamarshöllina en íbúar höfðu á fundinum viðrað reynslu sína af líkamlegri vanlíðan í loftbóluhöllinni gömlu, m.a. vegna þrýstings í tjaldinu.

Auglýst verður eftir nýjum bæjarstjóra segir Njörður og útilokar því að hann verði að finna innan raða nýs meirihluta í stjórn bæjarins.

Hveragerði hefur meira en í tvo áratugi verið Vígi Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn tap­ar nú tveim­ur fulltrúum af fjórum. Aldís Hafsteindóttir hættir sem bæjarstjóri, embætti sem hefur hún vermt undanfarin 16 ár og hættir einnig setu sem bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins síðan 1996.

Ekki hefur náðst í Aldísi í dag vegna fréttarinnar.