Hreyfi­hömluð sex­tán ára gömul stúlka frá Kent á Eng­landi berst fyrir lífi sínu eftir að hún var stungin 50 til 60 sinnum. Stúlkan fannst al­blóðug í al­mennings­garði í Kent í síðustu viku og er henni enn haldið sofandi, sam­kvæmt The Sun.

Sex­tán ára drengur er grunaður um verknaðinn en hann var hand­tekinn og leiddur fyrir dómara í gær. Sak­sóknarinn, Andrew Jones, sagði fyrir dómi að það var með öllu ó­víst hvort stúlkan myndi lifa á­rásina af og sagði að drengurinn hafði stungið hana „50 til 60 sinnum.“

Hélt á stúlkunni að almenningsgarðinum

Sam­kvæmt sak­sóknaranum hitti á­rásar­maðurinn stúlkuna á heimili hennar áður en þau fóru saman í göngu­túr. Stúlkan, sem mun eiga erfitt með að labba langt sökum hreyfi­hömlunar, komst ekki alla leið að al­mennings­garðinum og drengurinn sagður hafa haldið á henni síðasta spölinn.

Sam­kvæmt á­kærunni er drengurinn síðan sagður hafa stungið hana marg­sinnis af mikilli reiði þar sem stungusár hennar voru mjög djúp. Á­rásin er sögð hafa átt sér stað kvöldið 21. júlí en stúlkan fannst ekki fyrr átta um morguninn daginn eftir.

For­eldrar drengsins mættu með honum í dóm­sal í gær en verjandi hans sagði að drengurinn muni ekki játa sekt né segjast vera sak­laus fyrr en hann hefur fengið mat frá geð­lækni á geð­heilsu hans.