„Pabbi kemur með mér í einhverja daga sem er fínt. En svo fer hann aftur heim til Íslands sem foreldrum mínum finnst alveg smá erfitt,“ segir Logi Guðmundsson ballettdansari en hann flaug á vit ævintýranna í Bandaríkjunum á sunnudag, til að hefja nám við einn virtasta ballettskóla heims í San Francisco þar sem Helgi Tómasson ræður ríkjum.

Loga var boðið að koma á sumarnámskeið og sló í gegn og bauð skólinn honum skólavist með fullum skólastyrk, eitthvað sem er risastórt fyrir ungan íslenskan dreng. Óhætt er að segja að Logi sé einn efnilegasti ballettdansari Evrópu en hann byrjaði að æfa ballett átta ára gamall.

Hann kláraði tíunda bekkinn í vor og hafði ekki búist við að komast inn í þennan virta skóla. „Það var fullt af krökkum sem voru með mér á námskeiðinu sem voru búnir að setja allt sitt á bið því þau vonuðust eftir skólastyrknum en fengu hann ekki.

Mér persónulega fannst boðið vera óvænt og ég kom varla upp orði þegar ég fékk bréfið en það var ekki hægt annað en að þiggja þetta boð,“ segir Logi.

Hann segir að námið hér heima í Listdansskóla Íslands standist alþjóðlegar kröfur.

„Það er draumur að verða atvinnudansari en það er svolítið leiðinlegt að það er ekkert um það hér á Íslandi nema í nútímadansi. Þannig að ef ég vil vinna við þetta þá þarf ég að vera úti.“

Enginn klassískur dansflokkur er starfræktur hér á landi eins og staðan er.

Logi fyrir utan Listdansskóla Íslands
mynd/aðsend

Hann segir að sér líði betur að vera að fara til Ameríku en Hollands. Þar þekki hann hvern krók og kima eftir að hafa verið á námskeiðinu í sumar.

Og vinkona mömmu hans býr í borginni, eitthvað sem foreldrunum líður einnig vel með. „Ég á hauk í horni þar. Ef ég verð þreyttur á heimavistinni eða langar að komast í góðan sunnudagsmat eða eitthvað álíka.

En þetta er bara svo spennandi að ég get ekki beðið eftir að byrja,“ segir Logi.