Lögreglan á Suðurlandi stöðvaði á laugardag sextán ára dreng á tæplega 120 km hraða skammt austan við Vík. Móðir drengsins var í farþegasætinu og ungt barn í aftursætinu.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að móðirin hafi gefið þá skýringu að drengurinn væri í æfingaakstri en hún gat engu að síður ekki framvísað neinum pappírum því til staðfestingar.

Þá voru engar merkingar um æfingaakstur á bifreiðinni. Móðirin greiddi hraðasektina á staðnum og var henni gert að taka við akstri bifreiðarinnar. Um það bil fjórum klukkustundum síðar var sama bifreið stöðvuð aftur skammt vestan við Vík og var drengurinn aftur sestur við stýrið.

Í þetta skiptið var móðirin kærð fyrir að vera ekki með ökuskírteini meðferðis, geta ekki framvísað gögnum sem sýna fram á æfingaakstur drengsins og fyrir að vera ekki með æfingaakstursmerki á bifreiðinni.