Sex vikna gamalt ungabarn lét lífið af völdum kórónaveirunnar í Connecticut í Bandaríkjunum en talið er að barnið sé yngsta fórnarlamb veirunnar á heimsvísu.

Ned Lamont, ríkisstjóri í Connecticut, staðfesti þessar sorgarfregnir á twitter-síðu sinni. Ekki liggur fyrir hvort að barnið var með undirliggjandi sjúkdóm. Þetta er fyrsta barnið sem lætur lífið í ríkinu.

Alls hafa 5,137 látið lífið af völdum COVID-19 í Bandaríkjunum en greinst hafa 216,722 smit í landinu á þessum tímapunkti. Þessa stundina er 80% landsmanna í útgöngubanni þar í landi.

Greint var frá því í gær að 12 ára stúlka hefði látist í Belgíu eftir að hafa greinst með kórónaveiruna og er hún talin sú yngsta til þess að lúta í lægra haldi fyrir veirunni í Evrópu.