Undirritun drengskaparheitar var eina málið á dagskrá þingfundar Alþingis í morgun.

Vegna fjölda kórónuveirusmita hjá þingmönnum hafa sex varaþingmenn verið kallaðir inn á Alþingi og þurftu fimm þeirra að sverja drengskaparheit í morgun.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins stóð fundurinn stutt yfir.

Greint var frá því í gær að ellefu Covid-19 smit tengdust Alþingi. Alls hafa sex þingmenn greinst, þar af allur þingflokkur Viðreisnar, einn varaþingmaður og fjórir starfsmenn flokksins.

Samkvæmt vef Alþingis er notast við fjarfundi að mestu í dag.

Þórunn Wolfram Pétursdóttir, Thomas Möller, Elín Anna Gísladóttir og Daði Már Kristófersson taka sæti fyrir Viðreisn á Alþingi í fyrsta sinn og þurftu þau að sverja drengskaparheit í morgun. Jón Steindór Valdimarsson, sem áður hefur setið á þingi fyrir Viðreisn tók einnig varamannssæti í morgun.

Taka þau sæti fyrir Guðbrand Einarsson, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, Sigmar Guðmundsson, Hönnu Katrínu Friðriksson og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur.

Þá tók Viktor Stefán Pálsson sæti sem varamaður fyrir Samfylkynguna fyrir Oddnýju G. Harðardóttur.

Þingmenn sem Fréttablaðið ræddi við um helgina höfðu áhyggjur af afgreiðslu fjárlaga vegna smitanna.

Þeir sögðu umræður verða skrítnar ef hátt hlutfall þingmanna verði varaþingmenn.