Í nóvember bárust Lyfjastofnun sex tilkynningar vegna gruns um alvarlega aukaverkun tengdum bólusetningu gegn Covid-19. Lyfjastofnun barst í heild sinni 62 tilkynningar vegna gruns um aukaverkun vegna ýmissa bólusetninga í nóvember, þar af voru 26 tilkynningar tengdar bóluefnum gegn Covid-19.
Frá þessu er greint á vef Lyfjastofnunar.
Nokkur fjölgun var á milli mánuði en í október voru tilkynningar um aukaverkun í kjölfar bólusetninga 27.
Þar segir að hugsanlega megi rekja þessa fjölgun tilkynninga um aukaverkun til alþjóðlegs átaks sem miðar að því að auka vitund almennings um mikilvægi þess að tilkynna grun um aukaverkanir, #MedSafetyWeek. Átakið fór fram í nóvember.
Af þeim 26 tilkynningum sem tengdust bóluefnum gegn Covid-19 voru sex sem tengdust Spikevax eða Moderna, og tuttugu tengdust Comirnaty eða Pfizer. Tilkynningar sem tengdust öðrum lyfjum voru 36.
Í heildina voru tólf tilkynningar vegna gruns um alvarlega aukaverkun tengdum bólusetningum en þar af voru níu sem tengdust öðrum lyfum en þeim sem gefin eru gegn Covid-19.
Samkvæmt vef Lyfjastofnunar barst rúmur helmingur tilkynninga frá notendum sjálfum eða aðstandendum þeirra. Þrjár frá læknum, 21 frá lyfjafræðingum og fjórar frá öðrum heilbrigðisstarfsmönnum. Í einu tilviki var tilkynnanda ekki getið.
„Rétt er að taka fram að um tilkynningar vegna gruns um aukaverkun er að ræða. Það merkir að tilkynnt tilvik hafa átt sér stað í kjölfar lyfjanotkunar, en segir ekki til um hvort um orsakasamhengi sé að ræða milli tilvikanna og lyfjanotkunarinnar.
Fjölda aukaverkanatilkynninga ber alltaf að skoða í samhengi við notkun lyfs eða bóluefnis,“ að því er fram kemur á vef Lyfjastofnunar.