Sex ný Covid-19 innan­­lands­­smit greindust á landinu í dag. Allir sex sem greindust með veiruna höfðu verið í sótt­kví og tengjast þeir allir manninum, sem kom til landsins 15. júlí síðast­liðinn og við­hafði ekki heim­komu­­smit­­gát. Hann greindist með veiruna í gær. Þetta stað­­festir Kamilla Jósefs­dóttir, sér­­­fræðingur í sótt­vörnum hjá Land­­lækni og stað­­gengill sótt­varna­­læknis, við Frettablaðið en RÚV greindi fyrst frá.

Því hafa nú alls ellefu smit greinst hjá Ís­lendingum utan landa­mæra­skimunar á síðustu fjórum dögum. Þegar Frétta­blaðið ræddi við Kamillu fyrr í dag sagði hún að mögu­leg hóp­sýking gæti verið í upp­siglingu í tengslum við eitt smitanna sem greindist í gær. Ein­hverjir þeirra sex sem voru sendir í sótt­kví eftir að hafa verið í sam­neyti við manninn væru með ein­kenni Co­vid-19 en beðið væri eftir niður­stöðum úr sýna­tökum þeirra.

Nú eru niður­stöðurnar komnar og reyndust allir sex sem voru í sótt­kví einnig smitaðir. Maðurinn kom til landsins fyrir ellefu dögum síðan frá Eystra­salts­ríki.

Eins og greint var frá í dag við­hafði hann ekki heim­komu­smit­gát eins og hefði verið æski­legast því hann er jú Ís­lendingur og þannig skil­greindur sem þátt­takandi í ís­lensku sam­fé­lagi. Hann er þó ekki bú­settur á Ís­landi að stað­aldri og fékk því ekki skýrar leið­beiningar um þetta fyrir­komu­lag.

Hann notaði enska skráningar­formið við komu sína til landsins en þeir sem nota það fá ekki meldingu um að þeir þurfi að mæta í aðra sýna­töku eftir fjóra til fimm daga. Maðurinn fékk nei­kvætt úr skimuninni við landa­mærin og gerir Kamilla ráð fyrir því að hann hafi verið það ný­lega smitaður þegar hann kom til landsins að veiran hafi ekki verið greinan­leg í honum.