Ár­lega eru um 2.100 til 2.200 vinnu­slys til­kynnt til Vinnu­eftir­litsins hér á landi. Það merkir að um sex ein­staklingar slasast í vinnunni á hverjum einasta degi.

Þetta kom fram á For­varna­ráð­stefnu VÍS sem fram fór í Hörpu í gær, en þetta er í þrettánda sinn sem hún fer fram.

„Árangur í öryggis­málum er ekki heppni, heldur á­kvörðun,“ sagði Guð­ný Helga Her­berts­dóttir, for­stjóri VÍS, í á­varps­orðum sínum á ráð­stefnunni, en hún sagði nauð­syn­legt að breyta vinnu­staða­menningunni hér á landi með það að mark­miði að hafa öryggis­mál í fyrsta sæti við stjórnun og starf­semi fyrir­tækja af öllu tagi.

„Eitt vinnu­slys er einu slysi of mikið.“

Skráning vinnu­slysa sé af­skap­lega mikil­væg á öllum vinnu­stöðum svo hægt sé að læra af mis­tökum.

„Það hjálpar fyrir­tækjum að hafa yfir­sýn yfir mögu­legar hættur, en mikil­vægt er að halda utan um á­hættur til þess að hægt sé að gera betur,“ sagði Guð­ný Helga.

Fram kom í máli hennar að enda þótt mikill árangur hefði náðst í for­vörnum og miklar fram­farir átt sér stað í öryggis­málum á vinnu­stöðum undan­farin 20 ár, ættu Ís­lendingar enn langt í land í saman­burði við ná­granna­löndin.

Á ráð­stefnunni kom jafn­framt fram að sam­kvæmt rann­sóknum slasa konur sig oftar en karlar – en karlarnir lenda hins vegar í al­var­legri slysum.

Helstu or­saka­valdar þessara slysa eru vinnu­svæði, svo sem hálir fletir, lyftur og stigar, hand­verk­færi og iðnaðar­vélar.