Árlega eru um 2.100 til 2.200 vinnuslys tilkynnt til Vinnueftirlitsins hér á landi. Það merkir að um sex einstaklingar slasast í vinnunni á hverjum einasta degi.
Þetta kom fram á Forvarnaráðstefnu VÍS sem fram fór í Hörpu í gær, en þetta er í þrettánda sinn sem hún fer fram.
„Árangur í öryggismálum er ekki heppni, heldur ákvörðun,“ sagði Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS, í ávarpsorðum sínum á ráðstefnunni, en hún sagði nauðsynlegt að breyta vinnustaðamenningunni hér á landi með það að markmiði að hafa öryggismál í fyrsta sæti við stjórnun og starfsemi fyrirtækja af öllu tagi.
„Eitt vinnuslys er einu slysi of mikið.“
Skráning vinnuslysa sé afskaplega mikilvæg á öllum vinnustöðum svo hægt sé að læra af mistökum.
„Það hjálpar fyrirtækjum að hafa yfirsýn yfir mögulegar hættur, en mikilvægt er að halda utan um áhættur til þess að hægt sé að gera betur,“ sagði Guðný Helga.
Fram kom í máli hennar að enda þótt mikill árangur hefði náðst í forvörnum og miklar framfarir átt sér stað í öryggismálum á vinnustöðum undanfarin 20 ár, ættu Íslendingar enn langt í land í samanburði við nágrannalöndin.
Á ráðstefnunni kom jafnframt fram að samkvæmt rannsóknum slasa konur sig oftar en karlar – en karlarnir lenda hins vegar í alvarlegri slysum.
Helstu orsakavaldar þessara slysa eru vinnusvæði, svo sem hálir fletir, lyftur og stigar, handverkfæri og iðnaðarvélar.