Ástin verður í for­grunni í Tjarnar­bíó í kvöld þar sem ráð­stefnan Ástin í vísindum, listum og trú fer fram með pompi og prakt. „Þetta er örugg­lega fyrsta ástar­ráð­stefnan í heiminum og er í raun haldin í kringum fyrir­lestur pólska tauga­læknisins Bar­tosz Karasweski sem er að halda tölu um ást og líf­fræði,“ segir Elísa­bet Kristín Jökuls­dóttir, rit­höfundur´og skipuleggjari ráðstefnunnar, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Auk Bar­tosz verður Davíð Þór Jóns­son, prestur, á staðnum og ræðir um ástina og trúna. Á­samt þeim verður fjöldi lista­fólks á svæðinu og munu sex manns játa ást sína í beinni á ráð­stefnunni, þeirra á meðal verða Páll Óskar, Auður Styrk­árs­dóttir, Ilmur Kristjáns­dóttir og Stefán Ingvar Vig­fús­son. „Já tækni­maðurinn ætlar að játa ást sína það er alveg kominn tími á það,“ segir Elísa­bet sposk.

Mælir líkam­leg á­hrif ástar

Á meðan lista­fólkið talar um upp­lifun sína og til­finningar segir Elísa­bet tauga­lækninn vilja svara hvort ástin sé afl­vaki í þróun okkar eða bara huggu­legur skyndi­biti. „Hann ætlar að sýna á­hrif ástarinnar á heilann og vita hvort að sé hægt að mæla ástina í líkamanum.“

Sjálf segir Elísa­bet þó nokkrum sinnum hafa fundið fyrir kröftum ástarinnar á eigin skinni. „Ég hef fundið fyrir fiðrildum í maganum og hita í brjóstinu, svo hef ég tvisvar sinnum fengið í hnén,“ segir skáldið og bætir við að hnén hennar kikni þó að­eins þegar hún sé í maníu. „Ég fékk svona líka í hnén gagn­vart gæslu­manni á geð­deild,“ segir Elísa­bet hlægjandi.

Á ástarráðstefnuninni mun taugalæknirninn Bartosz svara hvort hægt sé að mæla ástina.
Fréttablaðið/Getty

Ástar­skjálftinn ó­um­flýjan­legur

Elísa­bet segir það merki um töffara­skap að hafa ekki fengið oftar í hnén en þegar hún hefur ný­sleppt orðinu virðist hún skipta hálf­partinn um skoðun. „En svo hef ég reyndar titrað og orðið að al­gerum fá­vita og verið hugsa; Vá hvernig lít ég út ég hlít að vera alveg eins og auli í framan.“

Þá hafi ástar­skjálfti ó­sjaldan hríslað sig um hana og segir hún sér­stak­lega eftir­minni­legt þegar hún fór á stefnu­mót með manni í Norður-Karo­línu í Banda­ríkjunum. „Ég var mætt á staðinn á undan honum og skalf eins og lauf í vindi þegar hann kom.“

Ó­bilandi trú á kær­leikanum

Elísa­bet játar að hún hafi alltaf trúað á ástina. „Ástin er til­komin til að koma fólki út úr ein­mana­leika, með henni brotna veggirnir á milli okkar og af­hjúpa okkur.“ Eitt það fal­legasta við ástina sé að hún gerir ekki upp á milli kosta og galla. „Það er mikil gjöf í heimi þar sem fólk dæmir hvort annað og reynir að að­greina sig hvort frá öðru,“ bendir Elísa­bet á.
Ástin eins­korðast heldur ekki við börn maka eða fólk að mati Elísa­betar. „Við elskum ekki bara maka og börn heldur líka vinnuna, jörðina, og ég elska Ó­feigs­fjörð og eld­gos.“ Þannig sé ástin fyrir alla.

Söngvarinn Páll Óskar er einn þeirra sem mun játa ást sína á ráðstefnu kvöldsins.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fiðrildi í maganum

Að­spurð segir Elísa­bet það vera tví­sýnt hvort gestir ráð­stefnunnar ráfi þaðan út með ást í hjarta eða hnefann á lofti. „Það er nefni­lega þannig að annað hvort fá þeir upp í kok af ástinni eða þá að þeir eru með fiðrildi í hjartanu.“

Þó er stefnt að því að loka­niður­staða ráð­stefnunnar verði fiðrildi sem flögrar í salnum og enginn veit hvaðan kom. „Ég yrði voða­lega á­nægð með það.“