Yfirvöld í Norður-Kórea segja sex hafa látist vegna Covid-19 í faraldri sem nú ríður yfir landið. Aðeins var greint frá því fyrst í gær að Covid-19 smit hafi komið til landsins. Segja þau tæplega tvö hundruð þúsund manns vera í einangrun og meðferð vegna einkenna.
Samkvæmt tilkynningu frá yfirvöldum landsins hefur orðið sprenging í smitum. Þar segir að 187.800 einstaklingar séu í einangrun og meðferð vegna einkenna. Ekki kemur fram í tilkynningunni hversu mörg þeirra hafi greinst með Covid-19 en þar segir að einkennin hafi dreift hratt úr sér í landinu frá því í lok apríl.
Í gær var tilkynnt í fyrsta sinn að Covid-19 smit hafi greinst í Norður-Kóreu og harðar samkomutakmarkanir tóku þegar gildi. Fram til þessa hafa yfirvöld landsins sagt að engin smit hafi komið upp á þeim tveimur árum frá því heimsfaraldur hófst, staðhæfing sem hefur vakið nokkrar efasemdir.
Landamæri Norður-Kóreu voru lokuð mjög fljótlega eftir að faraldur hófst og þurfti landið að glíma við vöru- og matarskort auk neikvæðra áhrifa á efnahaginn.
Í janúar á þessu ári var á fyrsta sinn opnað fyrir vöruflutningar frá Dandong í Kína til norður-kóresku borgarinnar Sinuiju, á landamærum landsins. Fyrir um mánuði síðan stöðvuðu yfirvöld í Kína vöruflutning frá Dandong á meðan ný smitbylgja reið yfir borgina.
Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa hingað til ekki tekið á móti neinum bóluefnagjöfum frá öðrum löndum eða frá COVAX verkefni Sameinuðu þjóðanna. Þess í stað var reynt að takast á við faraldurinn með stranglega lokuðum landamærum.