Sex einstaklingar hafa látist eftir að hafa farið í offituaðgerðir hjá Auðuni Sigurðssyni, íslenskum skurðlækni. Þetta kom fram í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld. Fjórir þeirra hafa látist í Bretlandi en tveir á Íslandi. Auðun heldur úti einkarekinni skurðstofu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og sker upp undir merkjum Gravitas.

Sjá einnig: Rannsaka nú andlát eftir magaminnkunaraðgerð

Fram kom í þættinum að Auðun hafi gert 250 magaermiaðgerðir á Íslandi en mun fleiri í Bretlandi, þar sem hann starfaði áður. 

 Í Kveik var rætt við Birgi Jakobsson landlækni sem viðurkenndi að engar upplýsingar væru fyrirliggjandi um fjölda offituaðgerða sem gerðar hafa verið á landinu. Það væri hvergi skráð.

Einstaklingarnir sem létust voru allir konur. Þær gengust að sögn allar undir magaermiaðgerðir, þar sem sjötíu til áttatíu prósent magans er fjarlægður.

Landlæknir gagnrýndi í þættinum skort á undirbúningi sjúklinga fyrir aðgerðir sem þessar og skort á eftirfylgni. Fram kom í Kveik að Auðun vildi ekki veita viðtal vegna málsins.