Sex létust, þar af fimm ungmenni, þegar þau krömdust í mannþröng á næturklúbbi nærri Ancona á Ítalíu í nótt. Styggð kom að hópi fólks í kjölfar þess að piparúða var spreyjað inni á staðnum, að því er óstaðfestar fregnir herma.

Ungmennin sem létust voru á aldrinum 14 til 16 ára en ein konan var 39 ára. Tugir eru slasaðir, þar af 13 alvarlega. Áverkar margra þeirra benda til þess að þau hafi kramist.

Talið er að um þúsund manns hafi verið inni á staðnum þegar atvikið varð. Rapparinn Sfera Ebbasta átti að stíga á stokk. Skemmtistaðurinn sem um ræðir heitir The Lanterna Azzurra.