Sex greindust með kórónaveiruna innanlands síðastliðinn sólarhring og voru fimm þeirra í sóttkví við greiningu. Þetta er fjölgun frá því í gær þegar fjórir greindust með veiruna en þá voru allir í sóttkví við greiningu.

Alls eru nú 167 í einangrun með virkt smit, 456 í sóttkví og 1.108 í skimunarsóttkví. Fimm eru nú á sjúkrahúsi vegna Covid-19.

Á landamærunum greindust þrír farþegar með veiruna og reyndust tveir vera með virkt smit. Einn farþegi var með mótefni. 1.061 sýni voru tekin á landamærunum í gær. Nýgengni smita hefur ekki verið lægri síðan síðasta sumar.

Breyttar sóttvarnaraðgerðir kynntar í dag

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur skilað minnisblaði til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um breytingar á samkomutakmörkunum. Minnisblað Þórólfs verður til umræðu á ríkisstjórnarfundi í dag og von er á tilkynningu um komandi aðgerðir.

Í vikunni munu bólusetningar halda áfram með þeim fjórum bóluefnum sem hafa hlotið skilyrt markaðsleyfi hér á landi. Alls hafa nú 36.376 einstaklingar verið fullbólusettir gegn COVID-19 auk þess sem bólusetning er hafin hjá 73.823 einstaklingum til viðbótar.