Alls hafa sex smitast þrisvar af Covid-19 og 3.972 tvisvar á Íslandi. Af þeim sem smituðust tvisvar smituðust langflestir aftur eftir áramót á þessu ári eða alls 3.560.
Af þeim sem greindust tvisvar lögðust þrettán inn á Landspítala með eða vegna Covid-19 en fjórir lögðust inn vegna Covid-19. Allir fjórir lögðust inn vegna seinni sýkingar en þar af var einn sem lagðist inn bæði vegna fyrri og seinni sýkingar.
Frá þessu er greint á vef landlæknisembættisins en þar eru greindar upplýsingar um smit á Íslandi með tilliti til endursmits, aldur smitaðra og fleira.
Þar kemur fram að þann 28. mars 2022 höfðu alls 180.726 greinst með Covid-19 á Íslandi. Fyrir áramót 2022 höfðu 30.487 manns greinst með Covid-19 hérlendis en eftir áramót hafa greinst 150.239 manns.
Ef tekið er einfalt hlutfall af þeim 30.487 sem smituðust fyrir áramót, eða áður en Omíkron-afbrigði veirunnar tók yfir, þá höfðu 3.560 eða 11,7 prósent smitast aftur eftir áramót í Omíkron bylgjunni.
Þá höfðu 246 smitast tvisvar fyrir áramót eða tæp 1 prósent af öllum smituðum þá. Af þeim sem hafa smitast aftur var fyrra smit í flestum tilfellum fyrir áramót en þó eru 166 einstaklingar sem hafa smitast tvisvar á þessu ári en að meðaltali liðu 317 dagar frá fyrra smiti að endursmiti. Minnst liðu 30 daga og mest liðu 714 daga.
Þá kemur fram að endursmit hafa greinst í öllum aldurshópum en eru heldur algengari í yngri aldurshópum eins og má sjá í töflu frá embætti landlæknis hér að neðan.
Á vef þeirra segir að þessar niðurstöður séu í samræmi við nýlega rannsókn frá Ísrael en líklega eru þeir yngri meira útsettir auk þess sem þeir eldri fara hugsanlega varlegar.

Um 80 prósent landsmanna eru fullbólusett og tæp 70 prósent fullorðinna hafa fengið örvunarskammt. Fram kemur í frétt landlæknisembættisins að nú sé embættið að skoða endursmit út frá bólusetningarstöðu.
Endursmit hérlendis er skilgreint í samræmi við leiðbeiningar sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) ef sami einstaklingur greinist tvisvar og 60 dagar eða meira eru á milli greininga. Í ákveðnum tilfellum hefur endursmit verið skilgreint innan 60 daga skv. mati COVID-19 göngudeildar Landspítala.