Sex menn voru sakfelldir í Héraðsdómi Reykjaness á miðvikudag í umfangsmiklu fjársvikamáli. Einn sakborningur var sýknaður og mál gegn öðrum fellt niður.

Eins og Fréttablaðið greindi frá þann 10. september voru hin ákærðu sökuð um að svíkja fé út úr Ábyrgðarsjóði launa í gegnum ýmis félög og teygðu málin sig meira en áratug aftur í tímann. Öll tengjast þau fjölskyldu- eða vinaböndum.

Þyngstu dómana fengu Eggert Skúli Jóhannesson og Jóhann Ósland Jósefsson, það er tveggja ára skilorðsbundinn fangelsisdóm. Aðrir fengu sex til tíu mánaða skilorðsbundna fangelsisdóma. Þar á meðal sonur Eggerts, Jóhannes Gísli Eggertsson, sem á langa sögu auðgunarbrota að baki.