Andlát sex sjúklinga á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, HSS, eru nú til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Lögreglan telur andlátin hafa verið ótímabær og borið að með saknæmum hætti.

RÚV greinir frá.

Öryggi sjúklinga ógnað

Á vef Rúv er einnig greint frá því að meðferð fimm annarra sjúklinga sé einnig til rannsóknar vegna rökstudds gruns lögreglu um að þeir hafi verið skráði í lífslokameðferð að tilefnislausu og með því hafi öryggi þeirra verið ógnað.

Samkvæmt úrskurði héraðsdóms hafa tveir starfsmenn réttarstöðu sakbornings, læknir og heilbrigðisstarfsmaður en aðstandendur sjúklingsins kærðu þrjá starfsmenn HSS til lögreglu í febrúar á þessu ári.

Sakborningar lögðust gegn matsbeiðni

Matsmenn hafa verið fengnir til að svara hver dánarorsök eins sjúklingsins, hvort forsendur hafi verið til staðar til að hefja lífslokameðferð og hvort verklagi við framkvæmd hennar hafi verið fylgt, hvort lyfjagjöf til sjúklingsins hafi verið eðlileg og hvort rétt hafi verið staðið að sjúkdómsgreiningum hans, að því er fram kemur á vef RÚV.

Þar segir einnig að báðir sakborningar hafi lagst gegn matsbeiðninni, það myndi valda þeim miska og tjóni og óskað var eftir því að málið yrði rannsakað án matsgerðar. Öðrum þeirra þótti einnig skorta upplýsingar um það hvað lögreglan ætlaði að sanna með matinu.

Sex andlát til rannsóknar

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að læknirinn hafi sýnt alvarlegan brest í faglegri þekkingu sem hafi ógnað öryggi sjúklinga og vanræksla hefði átt sér stað í veitingu heilbrigðisþjónustu.

Á vef Rúv er birt eftirfarandi úr úrskurði héraðsdóms: „Í málinu [er] verið að rannsakað andlát/mannslát sex einstaklinga sem ætla megi að hafi verið ótímabær og borið að með saknæmum hætti. Þá rannsaki lögregla einnig meðferð fimm annarra sjúklinga sem rökstuddur grunur sé um að hafi verið skráðir í lífslokameðferð á [...] að tilefnislausu og með því hafi öryggi þeirra verið ógnað.“