Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir það ekki sitt að dæma hegðun þeirra einstaklinga sem smitast af Covid-19.

Mikið hefur verið rætt um smit Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá almannavörnum síðustu daga eftir að hann greindi sjálfur frá því að tólf gestir hafi komið inn á heimili hans á tveggja daga tímabili skömmu áður en hann greindist.

Nokkuð hefur borið á gagnrýni á hegðun Víðis úr ýmsum áttum og hann sakaður um að virða eigin margítrekuðu sóttvarnatilmæli að vettugi.

„Ég er ekki að leggja neinn dóm á Víði, það sem hann hefur gert eða sagt frá frekar en aðra, við höfum þvert á móti sagt að við erum ekki að dæma þá sem eru að smitast því óvinurinn okkar er veiran sjálf en ekki við,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi, aðspurður um frásögn Víðis.

Ekki rétt að ræða mál hans á upplýsingafundi

„Auðvitað reynum við eftir bestu getu að fara eftir okkar eigin tillögum en við erum kannski mannleg eins og við erum flest og öll erum við að gera okkar besta. Ég tel að það þurfi að gilda áfram en auðvitað er það þannig að við náttúrulega umgöngumst okkar nánasta fólk, við eigum börn, foreldra og þar fram eftir götunum og það er alveg greinilegt að veiran getur læðst inn í slíka hópa líka,“ bætti Þórólfur við.

Þá sagði hann að hugur þeirra væri fyrst og fremst hjá Víði og hans fjölskyldu í þessum veikindum.

Þegar sú spurning var ítrekuð í fyrirspurnatíma hvort Víðir hafi með þessu fylgt þeim tilmælum sem væru í gildi sagði Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum og staðgengill Víðis, að hann teldi ekki rétt að ræða mál hans frekar á þessum vettvangi.

Megintilmælin áfram þau sömu

Þórólfur bætti við að skilaboðin væru sem fyrr þau að fólk væri hvatt til að lágmarka alla hópamyndun, virða fjölda- og fjarlægðartakmörk og passa upp á persónubundnar sóttvarnir.

„Við erum ekki að hvetja alla til að sitja inni og hitta ekki nokkurn mann. Það væri [útgöngubann] í raun og veru ef við værum að hvetja alla til að fara ekki út en við erum að hvetja alla til þess að fara eftir þessu, þetta eru grunnreglurnar.“

Þó geti komið upp smit þrátt fyrir að fólk fylgi þessum reglum.

„Þetta er til að lágmarka áhættuna og ef allir fara eftir því þá er það akkúrat það sem skiptir máli. Það sem við erum kannski að sjá í þessari rakningu er að menn eru ekki að fara alveg eftir þessum grunnreglum.“

Fréttin hefur verið uppfærð.