Rúmlega tveir þriðju Bandaríkjamanna telja sig ekki betur stadda fjárhagslega í dag en áður en Donald Trump varð forseti Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar dagblaðsins Financial Times og Peter G. Peterson-stofnunarinnar.


Alls segja 31 prósent Bandaríkjamanna sig vera verr stadda fjárhagslega í dag en þegar Trump varð forseti í byrjun árs 2017. Þá segja 33 prósent stöðuna vera eins. Svo segja 35 prósent að staðan sé betri.

Niðurstaðan vekur efasemdir um að efnahagsstaða Bandaríkjanna verði vatn á myllu Trumps í forsetakosningunum á næsta ári. Í hugum hins almenna borgara vega persónuleg fjármál þyngra en framkoma forsetans. Margir kjósendur Vestanhafs fá fréttir helst í gegnum staðarmiðla, þar sem misdjúpt er fjallað um embættisfærslur forsetans. Samkvæmt nýrri könnun PEW treysta Bandaríkjamenn frekar staðarmiðlum en stærri fjölmiðlum.

Fram til þessa hefur verið talið að Trump ætti góðan möguleika á endurkjöri. Staða hans er sterk á samfélagsmiðlum og efnahagurinn er á góðri siglingu, verg landsframleiðsla jókst um 1,9 prósent á þriðja fjórðungi þessa árs.

„Besti efnahagur í sögu Bandaríkjanna!“ sagði Trump í tísti. Þetta tíst, og fleiri ummæli í þá veru, benda til að sterkur efnahagur verði grundvallarstefið í komandi kosningabaráttu.

Djúp gjá er á milli Demókrata og Repúblikana í könnuninni. Segja talsvert fleiri Demókratar en Repúblikanar að efnahagur þeirra sé eins í dag og áður en Trump tók við. Eru Demókratar talsvert líklegri til að lýsa stöðunni sem versnandi og öfugt.

Financial Times hefur eftir Larry Sabato, forstöðumanni stjórnmálafræðistofnunar Virginíuháskóla, að það sé helst stríð eða stór uppákoma sem trompi efnahaginn í kosningum. „Í þessu tilfelli er það persóna Donalds Trump sem trompar efnahaginn,“ segir Sabato.

Niðurstöður könnunarinnar benda til að það séu helst lág laun sem trufli kjósendur. Sögðu 36 prósent að tekjur þeirra væru helsta vandamálið, 19 prósent sögðu það skuldir. 39 prósent sögðu að tekjur þeirra hefðu batnað. Eru það helst háskólamenntaðir karlmenn sem eru jákvæðir um efnahag sinn undir stjórn Trumps.