Verjandinn Odd­geir Einars­son gerði al­var­legar at­huga­semdir við mats­að­ferðir réttar­meina­fræðingsins Sebastians Kunz í aðal­með­ferð í máli Árna Gils Hjalta­sonar í Héraðs­dómi Reykja­víkur í morgun. Árni er á­kærður fyrir til­raun til mann­dráps og gefið að sök að hafa stungið annan mann með hnífi í höfuðið í á­tökum þeirra á milli í Breið­holti í mars 2017.

Árni var sak­felldur sam­kvæmt á­kæru í desember 2017 og dæmdur til fjögurra ára fangelsis­vistar en Hæsti­réttur vísaði málinu aftur heim í hérað og taldi málið ekki nægi­lega vel rann­sakað. Ó­sannað væri að or­sök á­verka brota­þola hefði orðið með þeim hætti sem haldið hafi verið fram í á­kæru. Máls­vörn á­kærða byggði meðal annars á þeim mögu­leika að um slys eða sjálfs­vörn hafi verið að ræða en á­greinings­laust er að brota­þolinn kom með hnífinn á staðinn. Á­kæru­valdið byggir á því að á­kærði hafi náð af honum hnífnum í á­tökunum og veitt honum fyrr­greindan á­verka.

Mats­gerðin ekki unnin í sam­ræmi við lög

Vegna ó­merkingaringarinnar þurfti að flytja málið á ný í héraði. Meðal um­deildustu þátta málsins eru mats­gerðir Sebastianz Kunz réttar­meina­fræðings og var hann fyrsta vitni í aðal­með­ferð málsins í dag. Lands­réttur hefur þegar úr­skurðað að mats­gerð Kunz hafi ekki verið unnin í sam­ræmi við lög en telur hann þrátt fyrir það ekki van­hæfan í málinu. Kröfu verjanda um skipun nýs mats­manns var hafnað á fyrri stigum málsins.

Fyrir liggur að réttar­fars­reglum var ekki fylgt við mats­gerð Kunz enda hélt Kunz hvorki mats­fund eins og skylt er og hafði heldur ekki fengið öll gögn málsins en sendi engu að síður frá sér skjal sem inni­hélt álit hans á því sem hann hafði verið beðinn um að meta. Verjandi Árna, Odd­geir Einars­son fór í fram­haldinu fram hjá að dóm­kvaðning Kunz yrði aftur­kölluð og nýr mats­maður fenginn í hans stað.

Þeirri kröfu var hafnað í héraði enda hafi um­rætt skjal ekki talist mats­gerð og vinnu hafi ekki enn verið lokið og það geri mats­manninn ekki van­hæfan.

Þegar Lands­réttur úr­skurðaði um á­greininginn hafði mats­maður hins vegar skilað mati sínu og um það segir í Lands­rétti að „á­greinings­laust sé að hafi ekki verið unnið í sam­ræmi við lög um með­ferð saka­mála. Hins vegar sé ekki unnt að verða við kröfu verjandans um nýjan mats­mann þar sem matið hafi þegar farið fram og mats­gerðinni skilað.

Hjalti Úrsus Árnason, faðir Árna Gils, hefur fylgt máli sonar síns mjög eftir.
Fréttablaðið/Ernir

Sak­sóknari fór yfir það við aðal­með­ferðina í morgun að á­kærði héldi því fram að á­verkarnir hafi orðið í á­tökum milli þeirra eða eftir á­tökin. Brota­þoli héldi því hins vegar fram að á­verkar hafi verið af völdum á­kærða sem hafi stungið hann í höfuðið. Bað hann Kunz að lýsa sínum niður­stöðum um á­stæður á­verkans.

Kunz svaraði því til að lang­lík­legast væri að á­verkinn hefði verið veittur með hnífi og sá sem veitti hann hafði staðið fyrir framan brota­þola eða að­eins til vinstri við hann beitt hnífnum með hægri hendi í þá mund sem brota­þoli var að rísa á fætur.

Ó­lík­legt hefði verið að á­verkinn hefði komið til fyrir slysni vegna þess hve miklum högg­þunga hefði þurft að beita og úti­lokað væri að brota­þoli hefði veitt sér á­verkann sjálfur.

Þá spurði sak­sóknari um á­verka á höndum á­kærða og hvort um mögu­lega varnar­á­verka væri að ræða. Kunz sagði út­lit þeirra ekki gefa til kynna að hann hefði gripið um hnífinn og að á­verkarnir væru ekki ein­kennandi varnar­á­verkar.

Taldi sig hafa öll gögn til að fram­kvæma matið

Verjandinn beindi næst spurningum til Kunz og spurði um á­stæður þess að hann hafi ekki haldið mats­fund áður en hann veitti álit sitt upp­haf­lega enda hefði hann á þeim tíma ekki fengið öll gögn sem legið gætu matinu til grund­vallar.

Kunz svaraði því til að hann hefði ekki talið þörf á því enda hefði hann talið sig hafa öll gögn sem hann þyrfti til að fram­kvæma matið. Hann tók einnig fram að mörgum mats­málum, sér­stak­lega á Ís­landi, hefðu ekki verið haldnir mats­fundir.

Verjandi spurði þá hvort hann teldi sig geta vitað fyrir fram hvort gögn frá á­kærða hefðu vægi í málinu. Kunz skildi ekki spurninguna og svaraði henni ekki.

Verjandinn vísaði þá til þess að Lands­réttur hefði slegið því föstu að mats­gerð hans hefði ekki verið fram­kvæmd í sam­ræmi við lög og spurði Kunz hvort hætta væri á því að hann myndi forðast að breyta niður­stöðu sinni í seinna matinu til að gera ekki meira úr mis­tökum sínum með því að boða ekki til mats­fundar. Því svaraði Kúnz neitandi.

Oddgeir Einarsson krafðist þess að nýr matsmaður yrði dómkvaddur. Því hefur verið synjað.
Fréttablaðið/Ernir

Í fram­burði Kunz kom fram að til grund­vallar matinu hefðu legið lækna­skýrslur, tvær myndir og fram­burðir á­kæðra, brota­þola og eins vitnis.

Í mat­skýrslu Kunz er fram­burður vitnisins rakinn og haft eftir því að hún hafi séð á­kærða sveifla hnífi í átt að brota­þola. Verjandi spurði hvers vegna hefði ekki verið vísað til síðari fram­burðar vitnisins fyrir dómi sem var mun ná­kvæmari og fram hefði komið að vitnið hefði ekki séð hníf í hendi á­kærða og því ekki séð hann sveifla hnífi í átt að á­kærða.

Kunz svaraði spurningunni ekki með beinum hætti en lýsti þeirri að­ferð sem við­höfð er við mat af þessum toga. Mats­maðurinn meti á­verkana sjálfa og myndi sér skoðun á því hvernig þeir gætu hafa or­sakast og ber sína niður­stöðu svo saman við fram­burði vitna. Hins vegar sé ekki ó­venju­legt að vitnis­burðir stangist á. Það sé ekki hlut­verk mats­manns að meta sann­leiks­gildi þeirra.

Í vitnis­burði sínum tók Kunz í­trekað fram að hann hafi miðað við vitnis­burð vitnisins frá 9. ágúst en verjandinn gerði at­huga­semd við það því engin skýrsla af vitninu væri með þeirri dag­setningu í málinu. Þegar hann reyndi að spyrja vitnið um mögu­legt mis­ræmi í því, þá skildi vitnið ekki spurninguna.

Þrír dómarar dæma málið. Tveir héraðs­dómarar og einn sér­fróður með­dómari, sér­fræðingur í réttar­meina­fræði. Hann beindi þeirri spurningu að mats­manninum hvort hann telji mögu­legt að á­verkinn á höfði brota­þola hefði getað or­sakast af mýkri hlut eða á­völum en hnífi, eins og kanti til dæmis. Vitnið sem gaf skýrslu á ensku sagðist ekki geta úti­lokað það og túlkaði túlkur hans svarið þannig að ekki væri úti­lokað að öðru á­haldi eða vopni hefði verið beitt.

Sebastian Kunz kom til starfa á Land­spítala fyrir rúmum tveimur árum en áður hafði enginn réttar­meina­fræðingur starfað hér á landi. Kunz var eini starfandi réttar­meina­fræðingurinn á landinu þar til fyrr á þessu ári þegar Pétur Guð­mann Guð­manns­son tók til starfa á meina­fræði­deild Land­spítalans. Því er tveir réttar­meina­fræðingar á landinu sem unnt er að dóm­kveða í málum sem þessu. Annars vegar Kunz og hins vegar Pétur Guð­mann sem er sér­fróður með­dómari í málinu.

Aðal­með­ferð málsins verður fram­haldið síðar í mánuðinum.