Lagið Jingle Bells fer að hljóma í höfðinu á mér um miðnætti á frídegi verslunarmanna en ég þarf að hafa mig alla við út ágústmánuð til að byrja ekki að skreyta fyrir jólin,“ segir jólabarnið og samfélagsmiðlastjarnan Guðrún Veiga Guðmundsdóttir, betur þekkt sem Gveiga.

Hún er búsett í Vestmannaeyjum ásamt eiginmanni sínum Guðmundi Þór Valssyni og tveimur börnum þeirra.

„Ef eiginmaðurinn gleymir að fela lyklana að geymslunni, sem hann gerir stundum í ágústlok, þá er ég farin að snöflast þar um í byrjun september. Dreg svo með mér inn eitt og eitt djásn úr jólakössunum. Þykist ætla að byrja hægt og rólega en finn mig svo iðulega við að raða saman jólatrénu fáeinum dögum síðar. Sem svo í stofu stendur í á þriðja mánuð sennilega. Njóta sem lengst, er mitt mottó,“ segir Guðrún Veiga.

Hún er ekki alin upp við að undirbúa jólin svona snemma hvað varðar skreytingar en móðir hennar skreytir helst á Þorláksmessu. „Við fengum nú ljósin upp eitthvað fyrr aðallega af því við systkinin erum með meistaragráðu í suði og pabbi gaf sig alltaf frekar snemma í desember. Vildi reyndar að ég gæti látið myndir fylgja af seríuuppsetningunum hjá honum, þær voru já, oft á tíðum áhugaverðar,“ segir Guðrún Veiga á léttum nótum.

Aðspurð segir Guðrún að eiginmaður hennar hafi tileinkað sér að elska jólin jafn mikið og hún. „Hann sá sæng sína útbreidda nokkuð snemma í okkar sambandi, hvað jólin varðar. Ef þú ætlar að elska mig þá fylgja jólin þeim ágæta pakka,“ segir hún.

„Börnin mín eru svo náttúrulega alin upp við þetta næstum þriggja mánaða jólahald en 15 ára syni mínum er nú farið að þykja nóg um svona í seinni tíð,“ segir Guðrún en syni hennar þótti aðeins of snemmt að byrja að hlusta á jólalög í september: „Nei, mamma, bara í hausnum á þér, hjá öllum öðrum er bara september.“

Þá segir hún vikurnar fyrir jól ekki síðri. „Ég kann bara svo innilega að meta þessa daga þar sem aðventan umlykur hversdagsleikann,“ segir Guðrún.

Ljúfar minningar úr æsku

Jólahefðir eru Guðrúnu mikilvægar og fylgja hefðir foreldra hennar nú hennar eigin fjölskyldu. „Ég er alin upp við dásamlegar jólahefðir sem allar eiga stóran stað í hjarta mínu. Það kom þess vegna ekkert annað til greina en að þær fengju allar sinn sess eftir að ég stofnaði mitt eigið heimili,“ segir hún. „Þannig að já, ég er 37 ára og geri allt eins og mamma og pabbi gerðu það, nema þetta með skreytingarnar sko,“ segir Guðrún sem ferðast enn á æskuslóðirnar á Eskifirði til foreldra sinna yfir hátíðarnar þrátt fyrir langt ferðalag.

Guðrún segist lánsöm að eiga afar ljúfar minningar frá jólunum sem er ein af ástæðum þess hversu mikið jólabarn hún er.

„Það er mér í mjög fersku minni hvernig foreldrar mínir áttu það til að fara að brasa einhvern fjandann á Þorláksmessu, eins og að kaupa ný húsgögn,“ segir hún.

„Einhvern tímann keyptu þau vígalegan glerskáp í stofuna sem þau fengu afhentan á aðfangadagsmorgun. Skemmst er frá því að segja að jólamaturinn var borðaður klukkan að ganga níu á aðfangadagskvöld og megnið af fjölskyldumeðlimum óbaðað í hversdagsfötunum af því það hafði tekið allan daginn og eiginlega gott betur að setja saman helvítis skápinn,“ bætir Guðrún við.

Aðspurð hvaða jólagjöf sé henni eftirminnilegust segir Guðrún það vera bókina Með bómull í skónum eftir Iðunni Steinsdóttur sem standi upp úr.

„Ég hef verið níu eða tíu ára og hún leyndist í pakka frá mömmu og pabba. Þarna tengdi ég fyrst bækur við jólin og þær spila enn stórt hlutverk í allri ást minni á jólunum,“ upplýsir Guðrún einlæg.

Guðrún Veiga ásamt móður sinni á jólum.
Fréttablaðið/Aðsend

Gaf næstum dóttur sína

Æskuminningar spilar augljóslega stórt hlutverk í kringum jólin hjá Guðrún Veigu og eru henni mikilvægar.

Jólamaturinn er eins og gefur að skilja alltaf eftir hefðum Guðrúnar og eru rjúpur á borðum á aðfangadag. „Öll eldamennska yfir hátíðarnar er alfarið í höndum mannsins míns, sem stendur yfir rjúpnapottinum og sósunni allan aðfangadag,“ upplýsir Guðrún og segir skemmtilega frá því hvernig dóttir þeirra vildi fá pítusósu með rjúpunni í fyrra. „Hún var næstum gefin í kjölfarið,“ segir hún og hlær

„Á jóladag er það hangikjöt og er makkarónu- og rúsínusalatið hennar Dísu ömmu minnar gjörsamlega ómissandi með því. Yfir áramót flytur eiginmaðurinn svo búferlum í eldhúsið, strýkur, stjanar við og smjörber kalkúna í fleiri klukkutíma en ég kæri mig um að telja. Öll svona matreiðsla svoleiðis leikur í höndunum á honum og það er hluti af jólunum að fylgjast með öllu þessu möndli hans.“

Guðrún Veiga leggur sig alla fram við innpökkunina á jólunum sem er í svokölluðum Pinterest-búningi.

„Ég byrja í október að þurrka appelsínusneiðar og hræra í leir sem verður að pakkaskrauti og dedúa svoleiðis við hvern einasta pakka hérna. Í þessum töluðu er ég að fara að gera tilraun með þurrkaðan mandarínubörk í pakkaskreytingar,“ upplýsir Guðrún sem ætlar einnig að perla skraut á pakkana í ár

„Fullkomnunaráráttan ber mig annað veifið ofurliði. Við getum sagt að það hefur komið fyrir að eiginmaður minn stígur inn í og stoppar mig af svona þegar ég er búin að pakka sama hlutnum inn þrisvar og rífa utan af honum jafnoft,“ segir Guðrún sem fær oftar en ekki að heyra frá eiginmanninum, syninum og móður sinni: „Þú veist að fólk rífur utan af þessu og fleygir beint í ruslið.“