VR mun leggja til lögfræðiþjónustu og styðja við Neytendasamtökin vegna mála sem til stendur að höfða gegn Almennri innheimtu ehf., sem innheimtir skuldir fyrir smálánafyrirtækið eCommerce 2020. Þetta var samþykkt á stjórnarfundi VR í kvöld.

„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við í VR þurfum að ganga í skítverkin eftir að löggjafinn og allir eftirlitsaðilar bregðast,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. „Það er herjað á unga fólkið, einstæða foreldra, ung fjölskylda ætlaði að borga leigu um mánaðarmótin en það var búið að taka 160 þúsund krónur út af reikningnum þeirra, handrukkarar hafa ruðst inn á heimili og neytt fólk til að taka smálán vegna fíkniefnaskulda. Þetta eru skelfileg mál og þau eru alvarlegri og þyngri en hægt er að lýsa með orðum.“

Líkt og Fréttablaðið greindi frá nýverið segja bæði Almenn innheimta og eCommerce 2020 að fyrirtækin séu hætt að veita og innheimta slík smálán.

Neytendasamtökin segja lítið að marka þær yfirlýsingar og segja lántakendum stillt upp við vegg með hótunum um að setja þá á vanskilaskrá Creditinfo.

Í yfirlýsingu eCommerce 2020 segir að smálánafyrirtækið hafi náð samkomulagi við Creditinfo um að útistandandi lán vegna smálána skráist á vanskilaskrá.

„Samkomulagið hefur mikla þýðingu þar sem upplýsingar um skuldsetningu lántakenda á markaðnum eru mikilvægar til að sem best heildaryfirsýn fáist og jafnvægi ríki á markaðnum,“ segir Ondřej Šmakal, forstjóri eCommerce 2020. „Einnig er mikilvægt fyrir þá sem skulda eldri lán og eru á vanskilaskrá að við höfum nú þegar breytt kröfunum svo lánið samanstendur einungis af höfuðstól og leyfilegum heildarlántökukostnaði á Íslandi.“

Segir hann einnig að öll lán fyrirtækisins sem voru gefin út eftir 13. maí síðastliðum séu eru innan marka laga um heildarlántökukostnað og fari því sjálfkrafa inn á vanskilaskrá ef þau séu ekki greidd. „Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að hafa komist að þessari niðurstöðu með Creditinfo því við leggjum mikið upp úr að eiga gott samstarf við viðskiptavini okkar og eins alla þá aðila sem koma að lánamálum á Íslandi,“ segir Šmakal.

Ragnar Þór segir stjórn VR hafa verið einhuga í að styðja við Neytendasamtökin. Mikið verk sé fram undan. Beinir hann ekki aðeins spjótum sínum að Almennri innheimtu, heldur einnig Sparisjóði Strandamanna sem veitir Almennri innheimtu aðgang að greiðslumiðlunarkerfi bankanna. „Við munum fara af krafti gegn fjármálastofnuninni, Sparisjóði Strandamanna, sem virðist fóstra þessa innheimtu þannig að kröfurnar gangi löglega inn í bankakerfið án þess að fyrir liggi sundurliðun á kostnaði og annað, þar sem við höfum það að fyrirtækin séu að rukka „höfuðstól“ af lánum þar sem verið er að krefja lántakendur um margfaldan höfuðstól til baka,“ segir Ragnar Þór.

„Við hvetjum alla þá sem hafa tekið smálán að greiða ekki meira af lánunum nema það liggi fyrir sundurliðaður kostnaður á höfuðstól og kostnaði við lánið. Það er algjört lykilatriði að fólk viti hvað það er að greiða og hvort það sé yfir allan vafa hafið að þessi fyrirtæki, í gengum Almenna innheimtu og Sparisjóð Strandamanna, séu ekki að rukka kröfur sem eru ólöglegar. Við munum kanna réttarstöðu allra sem hafa tekið smálán gagnvart þessum fyrirtækjum.“

Ragnar Þór er afdráttarlaus í skoðunum sínum á innheimtu smálána. „Hvað munu þessi fyrirtæki, Sparisjóður Strandamanna og Almenn innheimta, taka upp á næst? Innheimta fíkniefnaskuldir? Ég set þetta algjörlega á par. Ég fer fram á það að sparisjóðsstjórinn svari því hvort það sé næst á dagskrá hjá þeim.“