Stein­bergur Finn­boga­son, lög­maður manns sem varð fyrir al­var­legri líkams­á­rás í mið­bæ Reykja­víkur á að­fara­nótt fimmtu­dags furðar sig á því að skjól­stæðingur sinn hafi verið hand­járnaður þar sem hann lá al­blóðugur á nær­buxunum í íbúð sinni eftir á­rásina.

Að sögn lögmannsins réðust ná­grannar mannsins á hann með sveðju eftir að hann hafði komið til þeirra og beðið þá um að lækka í tón­list sem barst úr íbúð þeirra. Maðurinn er illa farinn eftir á­rásina og missti hann um lítra af blóði en sauma þurfti um sjö­tíu spor vegna sára hans.

Þurfti hann í að­gerð á Land­spítala eftir á­rásina en maðurinn er meðal annars með á­verka á hálsi. Segist lög­maður hans ekki vita til þess í öðrum líkams­á­rásar­málum að vinnu­brögð lög­reglu séu með þessum hætti.

Lög­reglan verst allra frétta vegna málsins. Áður hefur komið fram í til­kynningu frá lög­reglunni að fórnar­lambið hafi verið flutt til að­hlynningar á bráða­deild en að hann verði í kjöl­farið vistaður í fanga­geymslu.

Þá voru mennirnir þrír sem réðust á hann úr­skurðaðir í átta daga gæslu­varð­hald. Sagði lög­reglan að á­rásar­mennirnir séu grunaðir um vörslu fíkni­efna.