Ferða­mála­stofa setti upp sjálf­virkan teljara við gos­stöðvarnar í Geldinga­dal í dag til að fylgjast með fjölda fólks á svæðinu.

Stefán J. K. Jeppesen framkvæmdarstjóri TGJ, sem hafði um­sjón með upp­setningunni fyrir hönd Ferða­mála­stofu, sagði það hafa rétt náðst að setja upp teljarann áður en svæðið var opnað aftur fyrir fólki en því var lokað fyrir al­menningi í morgun.

„Það er mjög mikið af fólki hérna, mér leið eins og ég væri að starta víða­vangs­hlaupi,“ segir Stefán og bætir við að fólk hafa flykkst að í stríðum straumum eftir að uppsetningu teljarans lauk.

Teljarinn hefur drægni upp á fjóra metra í sitt­hvora átt og telur hann fólk bæði inn og út af svæðinu. Ferða­mála­stofa naut að­stoðar Björgunar­sveitarinnar Þor­bjarnar og lög­reglu við verkið.

Stefán J. K. Jeppesen og meðlimir Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar negla niður staur fyrir teljarann.
Mynd/Aðsend

Nauð­syn­legt að fylgjast með því hversu margir fara að gosinu

Jakob Rolfs­son hjá mæla­borði Ferða­mála­stofu segir að upp­lýsingarnar frá teljaranum geti meðal annars nýst við það að á­ætla hvort fara þurfi út í ein­hverjar fram­kvæmdir á svæðinu síðar meir.

„Ef það rignir og blotnar mikið þá verður þessi göngu­stígur sem er þarna undir eitt drullu­svað. Ef þetta gos á að vara í 150 ár þá er alveg nauð­syn­legt að fylgjast með því hversu margir eru að fara þangað og hvort það sé ein­hver á­stæða til að gera göngu­stíg inn að þessu gosi eða ekki,“ segir Jakob.

Björgunar­sveitin Þor­björn lauk við að stika göngu­leið í átt að gosinu frá Suður­stranda­veg á mánu­dag. Göngu­leiðin er um 3,5 kíló­metrar hvora leið og tekur það um það bil einn og hálfan klukku­tíma fyrir vel búið fólk að ganga að gosinu.

Teljarinn stendur við algengustu gönguleiðina að gosinu.
Mynd/Aðsend