Nú verjast Bandaríkjamenn í suðurhluta austurstrandar landsins látunum í fellibylnum Dorian og var það gert með ýmsum ráðum. Eigandi þessa Smart-bíls vildi engan séns taka með bíl sinn og ók honum einfaldlega inní eldhús íbúðarhúss síns. Þar ætti hann að vera óhultur sökum óveðursins. Það verður nú varla annað sagt en að Smart bíll hans sé einna heppilegastur bíla til að koma inní hús, en hann er agnarsmár bíll sem leggja má til dæmis þvert í stæði.

Reyndar á eigandi þessa bíls bílskúr en þar inni eru nú aðrar eigur heimilisins sem verið höfðu utandyra, en þær voru talsvert umfangsmeiri en smábíllinn. Það reyndist örlítið þröng á þingi að elda mat á meðan bíllinn var inní eldhúsinu, en það var engu að síður gert með brosi á vör. Það var helst að hundum heimilisins brygði við að sjá bílinn inni og urðu þeir víst nokkuð ruglaðir í ríminu.