Karlmaður var í síðustu viku dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir nauðgun sem átti sér stað á dvalarstað hans í janúar 2019. Maðurinn neitaði sök í málinu og krafðist sýknu.

Framburður mannsins þótti ekki trúverðugur og var hann einnig dæmdur til að greiða brotaþola 1,8 milljón króna í miskabætur ásamt vöxtum sem og allan sakarkostnað sem nemur um þremur milljónum króna.

Honum er gefið að sök að hafa beitt konu ofbeldi og ólögmætri nauðung, haft samræði og önnur kynferðismök við hana án hennar samþykkis. Maðurinn settist meðal annars ofan á bringu hennar, hélt henni fastri og þvingaði getnaðarlim sínum upp í munn hennar. Þá ýtti hann henni á rúm, girti niður um hana og stakk fingrum í leggöng hennar og hafði við hana samræði.

Hringdi strax í lögreglu

Samkvæmt skýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu var óskað eftir aðstoð lögreglu aðfaranótt 26. janúar 2019 um hálf sex leytið að morgni til. Þar var konan stödd en hún kvaðst hafa orðið fyrir nauðgun og lýsti hún atvikum fyrir lögreglu. Hún hafi hitt manninn, sem var kunningi hennar, á skemmtistað og þaðan tekið leigubíl með honum í miðbæ Reykjavíkur. Maðurinn bauð konunni heim þar sem þau drukku áfengi, reyktu gras og hlustuðu á tónlist. Fljótlega hafi hann svo farið að leita á hana. Konan segist ítrekað hafa tjáð manninum að hún vildi þetta ekki og ýtt honum frá sér en að hann hafi haldið áfram.

Konan var flutt til skoðunar á Neyðarmóttöku Landspítalans vegna kynferðisofbeldisins. Maðurinn var handtekinn skammt frá heimili sínu skömmu eftir að kallað var á lögreglu og neitaði hann alfarið sök í málinu. Í sýni sem tekið var af dömubindi konunnar við skoðun á neyðarmóttöku var fundust sæði.

Neitaði sök fyrir dómi

Maðurinn neitaði sök fyrir dómi og sagði munnmökin hafa farið fram með samþykki konunnar. Þá hafi þau ekki haft samræði í gegnum leggöng þar sem konan hafi verið á blæðingum. Síðar lýsti hann því að þau hafi reynt að hafa samræði í gegnum leggöng en að það hafi ekki tekist því hann hafi ekki getað náð getnaðarlimnum upp þar sem hann var svo drukkinn. Þá neitaði maðurinn að hafa sett fingur í leggöng konunnar.

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að framburður mannsins hafi hvorki verið stöðugur né skýr og að það hafi átt bæði við um framburð hans hjá lögreglu og fyrir dómi. Þá er það mat dómsins að margt í framburði hans samrýmist ekki því sem komi fram í gögnum málsins og að það kasti rýrð á trúverðugleika frásagnar hans.

Frásögnin þótti trúverðug

Var það mat dómsins að frásögn konunnar hafi verið afar trúverðug og að hann hafi samrýmst gögnum sem liggi fyrir í málinu. Þá hringdi hún strax á lögreglu og leitaði aðstoðar neyðarmóttöku þar sem hún lýsti atvikum á sama hátt og fyrir dómi.

Þá séu niðurstöður sæðisprófana tæknideildar lögreglunnar til þess fallnar að styrkja framburð konunnar um að maðurinn hafi haft samræði við hana um leggöng öfugt við það sem hann hafi haldið fram. DNA greining á sæðinu var þó ekki mögulega vegna blæðinga konunnar en dómur metur svo að yfirgnæfandi líkur séu á að sæðið sem fannst í dömubindi hennar hafi ekki verið eldra en nokkurra klukkustunda gamalt.