Gerð minnisvarða um brostin loforð Reykjavíkur við Kjalarnes hefur verið sett á bið. Um er að ræða verkefni sem íbúar Kjalarness kusu um í Hverfið mittkosningunum sem fóru fram síðasta haust. Alls var 91 verkefni kosið til framkvæmda sem bætast átti við þau hátt í sjö hundruð sem fyrir eru.

Minnisvarðinn á Kjalarnesi er eina verkefnið sem kosið var um síðasta haust sem sett var á bið. Öðrum verkefnum er ýmist lokið, eru við það að hefjast, í vinnslu eða í undirbúningi hjá verktaka.

Hverfið mitt gengur út á að leyfa íbúum að kjósa um ýmis verkefni í hverfum sínum, allt frá klifurgrindum og trampólínum til bættra göngustíga og lýsingar. Í fyrra var íbúum í fyrsta sinn leyft að koma með hugmyndir á kjörseðilinn um hvað skyldi framkvæmt í verkefninu Hverfið mitt, árin á undan var það í höndum hverfisráða.

Samkvæmt tillögunni er ætlaður heildarkostnaður f imm milljónir króna og var hugmyndin metin tæk af fagteymi sérfræðinga frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Hópur íbúa á Kjalarnesi átti tillöguna. „Hugmyndin á rætur að rekja til samningsins sem var gerður þegar Reykjavík og Kjalarnes sameinuðust árið 1998, samningur sem var kallaður Bláa bókin. Margt þar var ekki uppfyllt,“ segir Berglind Hönnudóttir, íbúi á Kjalarnesi, sem sendi tillöguna inn fyrir hönd hópsins. „Ég var ekki viss um að tillagan yrði kosin, þetta var aðallega pönk til að vekja athygli á málefnum hverfisins. Það er lítið talað við íbúa og maður fær það oft á tilfinninguna að hverfið sé skilið eftir. Fólk var það ánægt með tillöguna að hún var kosin.“

Berglind Hönnudóttir, íbúi á Kjalarnesi

Berglind segir það ekki koma á óvart að verkefnið hafi ekki komið til framkvæmda. „Eftir að ég lagði fram tillöguna fékk ég símtal frá starfsmanni borgarinnar þar sem ég er spurð hvort mér sé alvara með þessari hugmynd, hvort þetta sé jákvætt og hvort þetta auki jákvæðni í hverfinu. Ég svaraði neitandi, þetta sé ekki jákvætt, en mér sé alvara og að mér finnist að fólk megi kjósa um þetta.“

Hugmyndin sem hópurinn lagði fram.

Berglind segir að síðustu samskiptin við borgina hafi verið að verkið væri í hönnunarferli. „Það er ekkert í þessari tillögu sem er ógerlegt, það er ekkert í þessu sem þau geta neitað. Eina frá okkur var að þetta á að vera blá bók á áberandi stað í hverfinu, við höfum ekkert komið að hönnunarferlinu.“

Berglind segir það vel koma til greina að leggja tillöguna fram aftur í næstu kosningum ef hún kemur ekki til framkvæmda. „Algjörlega, það þarf að halda þessu á lífi.“ Reykjavíkurborg hefur ekki svarað erindum Fréttablaðsins vegna málsins