Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt þrjár brasilískar konur í samtals 26 mánaða fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. Konurnar stóðu saman að innflutningi á tæpu 1,8 kílóum af kókaíni til landsins frá París í Frakklandi til Íslands í byrjun september síðasta árs.
Konurnar földu fíkniefnin innvortis í samtals 221 pakkningu að því er fram kemur í úrskurði héraðsdóms.
Fyrir dómi höfnuðu konurnar því alfarið að hafa staðið að samverknaði. Hver um sig játaði sök fyrir þau efni sem hún bar sjálf inn til landsins en annað ekki. Fyrir dómi lýstu konurnar þrjár kynnum sínum af manni sem þær segja að hafi neytt þær til að flytja inn efnin.
Könnuðust hver við aðra
Í skýrslu rannsóknarlögregluþjóns segir að þegar málið kom upp hafi verið ljóst að konurnar þrjár hafi verið að ferðast saman og að þær könnuðust hver við aðra. Í farangri einnar hafi meðal annars verið bókun fyrir þrjá á hóteli í París.
Kókaínið sem konurnar komu með til landsins var sem fyrr segir nærri 1,8 kíló með 88 til 89 prósent styrkleika.
Í skýrslutöku hjá lögreglu greindi konunum á um hve lengi þær hefðu þekkst og hvernig þær kynntust. Þær greindu þó allar frá því að hafa kynnst manni sem hafi fengið þær til að flytja fíkniefnin.
Bauðst vinna í París
Fyrir dómi greindu konurnar frá kynnum sínum við manninn sem á að hafa staðið á bak við innflutning. Sú fyrsta sagði hjón, sem hún hefði treyst, hafa bent sér á vinnu í Sao Paulo í Brasilíu. Starfið tæki tvær vikur. Þegar til Sao Paulo var komið kynntist hún manninum. Hann hafi boðið henni starf í París sem hún þáði og þegar komið hefði verið að því að ákærða færi til Parísar þá hefði maðurinn beðið hana um að taka nokkuð með fyrir sig.
Nokkru síðar hafi maðurinn komið með eina meðákærðu og síðar tilkynnt henni að hún þyrfti að flytja fíkniefni með sér. Hún hefði þó strax neitað en maðurinn hafi tilkynnt henni að hún þyrfti að gera þetta og sagt þetta hættulaust. Hún hafi ekki viljað það en maðurinn hafi þá tjáð henni að hún hefði ekkert val.
Maðurinn hafi sett fíkniefnahylki í skál, alls kíló og sagt að hún þyrfti að taka þau inn. Hann hefði hótað henni og öskrað og því hafi hún reynt að taka hylkin en átt erfitt með það. Hún hefði ítrekað kastað þeim upp og að lokum hafi henni tekist að taka inn fimmtíu hylki.
Ákærða sagðist ekki vita hver hefði átt að fá efnin á Íslandi. Við komuna til landsins hafi hún átt að hafa samband við manninn sem myndi segja henni hvað ætti að gera næst.
Átti að innbyrða 200 hylki
Önnur konan kvaðst hafa starfað í Brasilíu og að um mánuði fyrir innflutninginn hefði viðskiptavinur boðið henni að vinna fyrir vini sína í París sem hún þáði. Um þremur dögum fyrir brottför hefði maðurinn lagt til að hún yrði heima hjá honum síðustu tvo dagana fram að ferðinni til að ljúka öllum undirbúningi.
Ákærða kvaðst hafa farið heim til hans og jafn skjótt hefði allt breyst og „martröðin byrjað.“ Maðurinn hefði kallað á hinar tvær stelpurnar og sagt þeim að þær þyrftu að flytja fíkniefni. Hún hafi neitað en henni tjáð að ekki væri hægt að hætta við. Hún kvaðst hafa orðið mjög hrædd og að maðurinn hafi sagt henni að taka inn 200 hylki. Henni hafi þó ekki tekist að taka inn nema 130 hylki.
Maðurinn hafi tjáð konunum að gæta þess að vekja litla athygli, dvelja á flugvelli og við komuna til Íslands segja þá sögu að þær væru þrjár vinkonur.
Var orðin skuldug
Sú þriðja sagðist hafa misst vinnu sína vegna kórónuveirufaraldursins og í framhaldinu tekið að safna skuldum. Við þær aðstæður hefði kona komið að máli við hana spurt hvort hún vildi fara í ferðalag til útlanda með fíkniefni og að hún hafi samþykkt það. Konan hafi komið henni í samband við manninn umrædda.
Konan sagðist hafa ítrekað kastað upp við að reyna innbyrða efnin sem maðurinn lét hana taka og að hún hafi ekki viljað taka inn efnin. Henni hafi verið sagt að ekki væri hægt að hætta við og hún myndi skulda mikið ef hún hætti við ferðalagið. Maðurinn hafi jafnframt hótað sér.
Taldar burðardýr
Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að konurnar séu taldar vera „burðardýr“ vegna skuldar við óþekktan aðila í heimalandi sínu.
Þær eru ekki sakfelldar fyrir samverknað aðeins innflutning á því efni sem hver og þeirra flutti inn.
Sú sem flutti mest magn inn, rúmt kíló, hlaut eins árs fangelsi og hinar tvær sjö mánaða fangelsi hvor.