Hópur foreldra sem ekki hafa fengið pláss fyrir börn sín á leikskólum fyrir haustið munu efna til hústökuleikskóla í ráðhúsinu á morgun, fimmtudag.

Eru foreldrar hvattir til þess að mæta með börn sín ásamt leikföngum og skiptiborðum og setja upp bráðabirgða dagvistun. Þetta sé til þess að mótmæla því úrræðaleysi sem hefur verið í málaflokknum.

Mótmælin hefjast klukkan 08:45 en það er Kristín Tómasdóttir sem aftur hefur efnt til mótmælanna.

Meirihlutinn þurfi á þrýstingi að halda

Bjarni Ben, faðir 14 mánaða gamals drengs mun taka þátt í hústökuleikskólanum á morgun og veitti Fréttblaðinu innsýn í framtakið.

„Sonur minn átti að byrja í aðlögun í þessari viku en það er aðeins að raskast þar sem önnur börn sem eru hjá þessum dagforeldrum, þau fengu ekki leikskóla pláss og þar af leiðandi er aðlögunin að dragast örlítið sem að raskar öllu á okkar heimili hvað varðar vinnu og slíkt,“ segir Bjarni en hann telur að ekki hafi verið hlustað nægilega vel á þá hópa sem mættu fyrst í ráðhúsið í þessari viku.

„Það er að segja að það voru engar tillögur eða raunveruleg úrræði sem komu út úr þeim mótmælum,“ segir Bjarni og bætir við „En þá er bara næsta skref að mæta með börnin í hústökuleikskólann í Ráðhúsinu. Mér heyrist að það þurfi að beita meiri þrýstingi á meirihlutann í Reykjavík svo það gerist eitthvað fyrir dagvistun,“ segir Bjarni.


Bjarni Ben segir að beita þurfi meirahlutann þrýstingi svo eitthvað gerist í málum dagvistunar.
Mynd/aðsend

Aukafundur sem lofar niðurstöðum á morgun

Skóla- og frístundaráð kom saman í morgun á aukafundi til að ræða dagvistunarmál. Formaður segir að á fundi borgarráðs á morgun verði nýjar tillögur kynntar sem eru bæði til bráðabirgða og til langs tíma en eiga að koma til móts við þá foreldra sem ekki hafa fengið vistun fyrir börn sín.

Erfitt að lifa í óvissu

Sjálfur segist Bjarni að óvissan sé það versta við þetta allt saman en hann segir að erfitt sé að skipuleggja vinnu sína þegar loforð um dagvistunarúrræði bregðist.

„Ég er ekki alveg viss hvernig þetta fer af því að við fengum ekki nógu skýr svör frá dagforeldrunum hvernig þetta verður leyst. Það lítur út fyrir að þetta tefjist um allavega viku hjá okkur og að mögulega séu eldri börnin að fá leikskólapláss einhvern tímann í næstu viku eða um mánaðarmótin“ segir Bjarni en hann starfar hjá auglýsingaskrifstofunni Pipar/TBWA.

„Þetta er óþægilegt þar sem maður er búinn að skipuleggja sig í kringum þetta. En svo eru bara loforð svikin og þá gerist þetta þannig að maður þarf sjálfur að taka skipulagninguna á sig,“ segir Bjarni sem segist ætla að taka með sér allt sem hann þarf til að geta sett upp dagvistun fyrir son sinn á morugn.

„Ég byrja daginn í einhverskonar aðlögun hjá dagforeldrum sem er samt sem áður ekki alvöru aðlögun. En svo ætla ég að mæta með drenginn niðureftir og við tökum kannski með okkur smá snarl og eitthvað dót og bleyjur til skiptanna ásamt skiptiborði. Svo sjáum við bara til," segir Bjarni að lokum.