Icelandair og Rauði krossinn vinna að því að setja upp fjölda­hjálparmið­stöð í íþróttahúsinu Sunnubraut í Keflavík fyrir far­þega sem eru fastir í Leifs­stöð vegna veðurs. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Icelandair.

Vegna veðurs var tekin á­kvörðun um að af­lýsa öllu flugi flug­fé­lagsins í kvöld. Alls eru það ellefu flug frá Kefla­vík sem áttu að fara bæði til Banda­ríkjanna og Evrópu.

Sam­kvæmt til­kynningunni vinnur starfs­fólk Icelandair nú hörðum höndum að því að finna gistingu fyrir alla far­þegana. Búið er að af­henda þeim sem eru fastir á vellinum matar­inn­eign sem er hægt að nýta þar til þeir komast í nætur­gistingu.


„Enn­fremur eru björgunar­sveitir að að­stoða fólk á vegum við að komast leiðar sinnar og unnið er að því að finna nætur­gistingu fyrir þá far­þega sem áttu að fljúga frá Kefla­vík í kvöld,“ segir í til­kynningunni.


„Búið er að upp­lýsa alla far­þega um röskunina og unnið er að endur­bókun. Far­þegar munu fá senda upp­færða ferða­á­ætlun í tölvu­pósti en geta einnig fylgst með “um­sjón með bókun” á heima­síðu Icelandair. Þar eru flug­upp­lýsingar upp­færðar um leið og breytingar liggja fyrir og þar geta far­þegar jafn­framt upp­fært net­föng og síma­númer þannig að hægt sé að koma skila­boðum til þeirra hratt og örugg­lega.“

Reykjanesbraut lokuð

Búið er að loka Reykja­nes­brautinni og hafa margir setið þar fastir í bílum sínum í hátt í fjóra klukku­tíma. Hægt er að fylgjast með lokunum á vef Vega­gerðarinnar.

Lög­reglan á Suður­nesjum hefur hvatt þá sem komast ekki leiðar sinnar til að leita í fjölda­hjálpar­mið­stöðina til að komast í öruggt skjól og fá að­stoð.

Búið er að koma fjöldahjálparmiðstöð í íþróttahúsinu Sunnubraut í Keflavík fyrir þá sem ekki eru að komast leið sinnar og er fólk hvatt til þess að fara þangað til þess að komast í öruggt skjól og fá aðstoð.

Posted by Lögreglustjórinn á Suðurnesjum on Sunday, January 12, 2020


Koma far­þegum frá borði


Enn sitja um 1200 far­þegar Icelandair fastir um borð í átta vélum flug­fé­lagsins í Leifs­stöð. Isavia tók á­kvörðum um það í kvöld að taka allar land­göngu­brýr úr notkun vegna mikils vind­hraða og komast far­þegarnir því ekki frá borði.


Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Guð­jóni Helga­­syni, upp­­­lýsinga­full­­trúa Isavia, er unnið að því að koma land­göngu­brúnum aftur að vélunum og vonar hann að far­þegarnir komist því bráðum frá borði.

Fréttin var uppfærð kl. 22:35: Upprunalega stóð að fjöldahjálparmiðstöðin yrði í Reykjaneshöll og var þá miðað við upprunaleg áform Icelandair. Síðan var ákveðið að hafa stöðina frekar í íþróttahúsinu Sunnubraut.