„Ég hef lagt fram frumvarp um að stöðva verkfall flugvirkja," sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í ráðherrabústaðnum fyrir stundu.

Áslaug segir það vonbrigði að ekki hafi náðst að semja í deilu þeirra við Landhelgisgæsluna í gær, en flugvirkjar hafa verið i verkfalli síðan 5. nóvember. Áslaug segir mikilvægt vegna ástandsins að grípa inn í og koma þannig starfsemi Landhelgisgæslunnar aftur í gang aftur.

Samkvæmt svari Landhelgisgsælunnar við fyrirspurn Fréttablaðsins nema heildarlaun flugvirkja sem þar starfa 1.764.291 krónum á mánuði. „Á árinu 2019 var heildarlaunakostnaður vegna þeirra 17 flugvirkja sem þá voru starfandi samtals 462.375.431 krónur. Ef frá eru dregin launatengd gjöld voru meðalheildarlaun flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni 1.764.291 krónur. á mánuði, segir Landhelgisgæslan.

Verkfallið hefur staðið yfir frá 5. nóvember og nær til sex af átján flugvirkjun Gæslunnar sem starfa í flugskýli og viðhaldsskipulagningu. Nýta átti þá flugvirkja sem ekki eru í verkfalli til sinna viðhaldinu og fengu þeir hvatningarbréf síðasta miðvikudag um að mæta og sinna skoðuninni. Ljóst er að hluti þeirra hafa ekki mætt. Samningafundi flugvirkja og gæslunnar lauk hjá Ríkissáttasemjara án árangurs í gærkvöldi en ríkissáttasemjari lagði fram innanhústillögu um eins árs framlengingu á gildandi samningi auk sömu hækkana og flugvirkjar Icelandair hafa fengið. Tillögunni var hafnað af flugvirkjum og fundurinn var því árangurslaus.

Deilan fyrir gerðardóm verði ekki samið fyrir 4. janúar

Í frumvarpi Áslaugar er flugvirkjum veitt tækifæri til að ná samningum fyrir 4. janúar, en takist ekki að leysa deiluna fyrir þann tíma fer hún fyrir gerðardóm.

Frumvarp Áslaugar fer nú til umræðu í þingflokkum meirihlutans og til umræðu á Alþingi klukkan tvö í dag. Ríkisstjórnin situr nú áfram á fundi, líklega til hádegis.

Fréttin hefur verið uppfærð.