Sést hefur til ísbjarnar nyrst á Melrakkasléttu eða suður af Hraunhafnarvatni. Lögreglunni barst tilkynning um klukkan sjö í kvöld. 

Samkvæmt tilkynningu lögreglunnar á Norðurlandi eystra er óstaðfest að um hvítabjörn sé að ræða en lögreglan er að rannsaka málið í samstarfi við Landhelgisgæsluna.

Lögreglan biður fólk að hafa varann á og hringja í neyðarlínuna, 112, ef það telur sig sjá björn á svæðinu og biður fólk um að reyna ekki að nálgast hvítabirni.

Náttúruvársérfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands segir að nokkuð hefur verið af borgarísjökum á Norðausturlandi, en að ómögulegt sé að segja hvort að ísbjörn gæti hafa borist til landsins út frá því.