Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti á fimmtudag að setja á fót frístundaklúbb fyrir fötluð ungmenni tíu til tuttugu ára. Stefnt er að því að starfsemin fari fram í Skála­túni.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, segir að nærtækara væri að byggja upp þjónustu fyrir öll ungmenni í bæjarfélaginu og gera í leiðinni nauðsynlegar ráðstafanir til að fötluð börn geti tekið þátt.

„Mér brá heldur betur í brún því ég fæ ekki betur séð en bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ ætli sér að viðhalda áratuga aðskilnaðarstefnu sem viðgengist hefur,“ segir Bryndís í færslu á Facebook.

Hún telur sérstaklega óviðeigandi að úrræðið skuli vera í Skálatúni, þar sem er rekin svokölluð altæk stofnun. Samkvæmt Bryndísi hefur fólk innan þannig stofnana lítið sem ekkert einkalíf og er svo til einangrað frá samfélaginu. Hún segir fyrirkomulagið vera mjög úrelt.

Bryndís segir í samtali við Fréttablaðið að sértæk félagsþjónusta fyrir fötluð börn stangist á við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem er kveðið á um að ekki skuli mismuna á grundvelli fatlana.

„Að ætla að stuðla vísvitandi að aðgreiningu fatlaðra ungmenna frá öðrum í samfélaginu er algjörlega galið og óásættanlegt,“ segir hún.

„Ég skora á bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ að koma inn í nútímann.“

Bryndís bendir líka á að það sé raunverulegur vilji fatlaðs fólks að vera þátttakendur í samfélaginu og vera ekki sett til hliðar. Margt fólk hafi slæmar minningar af því að vera sett í sérdeildir og tekið úr almennum úrræðum.

Það er þó jákvætt að gerð sé tilraun til að búa til þjónustu fyrir þessi börn í bæjarfélaginu, segir Bryndís. Hingað til hafa þau neyðst til að keyra í Hafnarfjörð til að sækja þjónustuna. „En þetta er ekki rétta aðferðin,“ segir hún.

„Ég skora á bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ að koma inn í nútímann, endurskoða ákvörðunina og fylgja þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist,“ segir hún.

Fær ekki að fara í hitt húsið

Benedikta Birgisdóttir er foreldri fatlaðs barns í Kjós. Hún furðar sig á því hversu lítið stendur til boða fyrir son hennar, sem er nú að byrja í framhaldsskóla.

Hann hefur verið í grunnskóla í Reykjavík og sótt frístundaheimili þar. Nú er hann að byrja í framhaldsskóla og myndi helst vilja fara í Hitt húsið, þar sem vinir hans eru margir. En úr því að fjölskyldan býr utan Reykjavíkur þá neyðist hann til að fara í Hafnarfjörð.

Benedikta segir það fínt framtak að stofna miðstöð í bæjarfélaginu, en segir það ekki henta hennar fjölskyldu. Hún telur líklegt að fáir muni mæta þangað og litlar líkur á að sonur hennar þekki nokkurn þar.

Hún segir félagsmiðstöðvar og ungmennahús vera stóran hluta af félagslífi margra fatlaðra barna og því mikilvægt að þau geti sótt þær miðstöðvar sem henta þeim best.

„Af hverju megum við ekki sem fjölskyldur velja það sem við teljum henta best fyrir okkur?“ spyr hún.